Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - ÍA 1-2 | Hrakfarir Vals halda áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skagamenn fögnuðu vel og innilega í leikslok.
Skagamenn fögnuðu vel og innilega í leikslok. vísir/daníel þór
ÍA lyfti sér upp í 2. sæti Pepsi Max-deildar karla með 1-2 útisigri á Íslandsmeisturum Vals í kvöld.

Skagamenn eru með sjö stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar en Valsmenn, sem fögnuðu 108 ára afmæli sínu í dag, aðeins með eitt.

Bæði mörk ÍA komu eftir hornspyrnur Tryggva Hrafns Haraldssonar frá vinstri.

Á 21. mínútu fann Tryggvi Óttar Bjarna Guðmundsson sem skoraði sitt þriðja mark í öllum keppnum í sumar. Fyrir tímabilið hafði Breiðhyltingurinn ekki skorað í deild og bikar í fimm ár.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks jók Arnar Már Guðjónsson muninn í 0-2 með skalla eftir hornspyrnu Tryggva.

Valsmenn minnkuðu muninn á 57. mínútu þegar Gary Martin skoraði úr vítaspyrnu. Þegar níu mínútur voru til leiksloka vildu heimamenn fá annað víti, og höfðu talsvert til síns máls, en Egill Arnar Sigurþórsson dæmdi ekkert.

Fleiri urðu mörkin ekki og ÍA fagnaði sínum fyrsta sigri á Hlíðarenda síðan 2008.

Af hverju vann ÍA?

Skagamenn spiluðu gríðarlega sterkan varnarleik í kvöld og héldu Valsmönnum að mestu í skefjum. ÍA pressaði ekki nálægt því jafn stíft og í fyrstu tveimur deildarleikjunum en liðið sýndi að það getur líka legið aftarlega og varist þannig.

Gestirnir sköpuðu ekki mikið í opnum leik en nýttu föstu leikatriðin vel. Þau hafa gefið mörk í öllum leikjum ÍA í deildinni til þessa.

Hverjir stóðu upp úr?

Lars Marcus Johansson hefur komið gríðarlega sterkur inn í lið ÍA en þessi stóri og stæðilegi Svíi bindur vörn liðsins saman. Óttar Bjarni og Einar Logi Einarsson áttu einnig skínandi góðan leik í miðju varnarinnar og sá fyrrnefndi skoraði í þriðja leiknum í röð.

Tryggvi var duglegur í framlínunni og hornspyrnur hans skiluðu tveimur mörkum.

Skagamaðurinn Andri Adolphsson var sá eini sem var með lífsmarki í liði Vals.

Hvað gekk illa?

Fjórða leikinn í röð léku Valsmenn illa í fyrri hálfleik og voru undir að honum loknum. Seinni hálfleikurinn var ekki mikið skárri í kvöld og þrátt fyrir að vera með boltann meiri hlutann af leiknum sköpuðu meistararnir lítið.

Áran yfir Valsliðinu hefur ekki verið góð í upphafi tímabils og uppskeran rýr. Valsmenn eru ekki búnir að vinna leik í deildinni og dottnir út úr Mjólkurbikarnum, þrátt fyrir að þrír af fyrstu fjórum leikjum liðsins í sumar hafi verið á heimavelli. Vörn Íslandsmeistaranna er óörugg og sóknin einhæf. Og mikilvægi Patricks Pedersen fyrir Val kemur betur í ljós með hverjum leiknum.

Hvað gerist næst?

Framundan eru tveir útileikir hjá Val; gegn Fylki og FH. Valsmenn verða að fá eitthvað út úr þeim leikjum ef tímabilið á ekki að fara í hundana.

Gulir og glaðir Skagamenn eiga afar krefjandi leiki fyrir höndum; gegn FH í deild og bikar og Breiðabliki og Stjörnunni í deild. Þeir mæta þó með kassann úti eftir frábæra byrjun á tímabilinu.

Jóhannes Karl Guðjónsson.Vísir/Daníel
Jóhannes Karl: Þessir gaurar eru bara klárir í slaginn

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var alsæll eftir sigur liðsins á Íslandsmeisturum Vals á Hlíðarenda í kvöld.

„Þetta eru frábær úrslit gegn frábæru liði. Ég get ekki annað en verið sáttur,“ sagði Jóhannes Karl sem hrósaði sínum mönnum fyrir mikla vinnusemi.

„Það þarf ekkert að hvetja þessa gaura áfram. Þeir eru bara klárir í slaginn. Þeir eru búnir að leggja hart að sér og eru klárir í hvern einasta leik. Við vorum skipulagðir og unnum fyrir hvorn annan. Við vorum frábærir í föstum leikatriðum og ógnuðum í þeim. Þegar þú kemur á svona erfiðan útivöll þarftu að geta breytt skipulaginu og við gerðum það.“

Í öllum þremur leikjum ÍA í Pepsi Max-deildinni hefur liðið skorað eftir föst leikatriði.

„Við erum með frábæra spyrnumenn og með menn sem eru tilbúnir að ráðast á boltann og fórna sér. Þetta hefur gengið vel og við munum halda áfram að bæta föstu leikatriðin enn frekar,“ sagði Jóhannes Karl.

Skagamenn stefna hátt og byrjunin á tímabilinu lofar svo sannarlega góðu.

„Við förum inn í hvern einasta leik til að vinna. Í dag heppnaðist það að vinna Val en næst er bara leikur gegn FH á heimavelli. Við ætlum að vinna þann leik,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.fréttablaðið/ernir
Ólafur Jóh: Gerir þetta enginn fyrir okkur

„Það er fúlt að tapa. Það er ekki hægt að neita því,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir tapið fyrir ÍA í kvöld. En fannst Ólafi sínir menn eiga meira skilið út úr leiknum?

„Það er allt annar handleggur. En við vorum ekki nógu góðir í fyrri hálfleik, gekk illa að skapa færi og fengum á okkur tvö mörk eftir föst leikatriði.“

Skagamenn sköpuðu ekki mörg færi í opnum leik en nýttu föstu leikatriðin vel.

„Það er svekkjandi. Í þetta skiptið vorum við daprir í föstum leikatriðum,“ sagði Ólafur.

Valsmenn eru aðeins með eitt stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar í Pepsi Max-deildinni og dottnir út úr Mjólkurbikarnum. En hvað þarf Valur að gera til að komast á sigurbraut?

„Það gerir það enginn fyrir okkur,“ sagði Ólafur. „Við þurfum að vinna í okkur og koma okkur í gang.“

Óttar Bjarni fagnar með félögum sínum í leiknum.Vísir/Daníel
Óttar Bjarni: Veit ekki hvernig maður á að haga sér

Óttar Bjarni Guðmundsson skoraði fyrra mark ÍA í sigrinum á Val í kvöld.

„Ég er virkilega glaður. Það er ekkert hægt að lýsa því betur. Við fengum þrjú stig, sofum á því og síðan byrjun við undirbúa okkur fyrir leikinn gegn FH á morgun,“ sagði Óttar Bjarni við Vísi eftir leik.

Breiðhyltingurinn hefur nú skorað í þremur leikjum í röð, tveimur í deild og einum í bikar. Hann er þriggja marka maður í sumar en fyrir tímabilið hafði hann ekki skorað í deild eða bikar síðan 2014.

„Ég veit ekki hvað er að gerast. Maður veit ekki hvernig maður á að haga sér og roðnar bara. En ég reyni að njóta,“ sagði Óttar Bjarni hlæjandi.

Skagamenn voru öflugir í leiknum í kvöld, leiddu 0-2 í hálfleik og þrátt fyrir að Valsmenn minnkuðu muninn snemma í seinni hálfleik lönduðu Akurnesingar sigri.

„Við náðum tveggja marka forskoti í hálfleik en eins og gegn Fylki héldum við boltanum ekki nógu vel. En við vorum aðeins framar með vörnina en gegn Fylki og héldum Val nokkurn veginn frá markinu,“ sagði Óttar Bjarni.

ÍA er með sjö stig í 2. sæti deildarinnar. Þrátt fyrir góða byrjun á tímabilinu eru Skagamenn jarðtengdir og einbeittir á næstu leiki.

„Við erum með sjö stig og ætlum að vera með tíu stig eftir næsta leik. Við stefnum á það,“ sagði Óttar Bjarni að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira