Innlent

Amazon vill fá íslenskan málfræðing til starfa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alexa fylgir Amazon Echo.
Alexa fylgir Amazon Echo. Vísir/Getty
Bandaríska stórfyrirtæki Amazon leitar nú að sérfræðingi í íslenskri málfræði til að vinna að þróun talgreiningar og máltækni fyrir stafræna aðstoðarmanninn Alexa. Þýðingarstofan Skopos bendir á þetta í frétt sinni.

Svo virðist sem að Amazon hafi hug á því að kenna Alexu fleiri tungumál en auk íslenskusérfræðings er einnig auglýst eftir sérfræðingum í dönsku, þýsku, norsku, sænsku og þýsku svo dæmi séu tekin en alls leitar Amazon nú að málfræðingum fyrir fjórtán tungumál.

Alexa fylgir Amazon Echo, snjallhátalara Amazon og skilur Alexa margvíslegar raddskipanir líkt og Vísir hefur fjallað um.

Sjá einnig:„Ég er búin að biðja hana um að spila íslenska tónlist en hún skilur mig aldrei“



Fastlega er reiknað með því að innan tíðar muni vera hægt að eiga í samskiptum við öll helstu tæki heimilisinsVísir/Getty
Í auglýsingunni er leitað eftir málfræðingum sem hafa íslensku að móðurmáli, hafa góða þekkingu á hljóðfræði og hljóðkerfisfræði og eru vel að sér í forritun, m.a. reglulegum segðum og skipanalínum í Unix/Linux.

Talið er að næsta bylting sem verði á samskiptum manns og tölvu sé stafrænn aðstoðarmaður á borð við Alexu og Siri frá Apple sem geti skilið flóknar fyrirskipanir. Á markað eru að koma heimilistæki sem hægt er að stýra með röddinni og telja sérfræðingar að ekki sé langt í að hægt verði að eiga samskipti við öll helstu tæki á heimilinu.

Bent hefur þó verið á að íslenskan eigi undir högg að sækja enda sé ekki sjálgefið að stórfyrirtæki ákveði að láta íslenskuna fylgja með stafrænum aðstoðarmönnum sínum.

Sjá einnig: Ekki einfalt mál fyrir Google að bjarga íslenskunni

Amazon hefur áður sýnt íslenskunni áhuga en Polly, talgervill Amazon, getur tekið texta og lesið á lýtalausri íslensku.

Líkt og Vísir hefur fjallað ítarlega um hafa sérfræðingar í íslenskri máltækni varað við því að íslenskan geti setið eftir þegar kemur að máltækni, þróuninni fleygi fram. Því sé mikilvægt að stórfyrirtæki á borð við Google, Microsoft, Apple og Amazon láti íslenskuna fylgja með í vörum sem geti talað eða skilið tungumál og því hlýtur það að teljast afar jákvætt skref að Amazon horfi til íslenskunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×