Fótbolti

Þýskaland hefndi fyrir tapið í riðlakeppninni og tryggði sér sæti í úrslitum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þjóðverjar eru komnir í úrslit á Ólympíuleikum í fyrsta sinn.
Þjóðverjar eru komnir í úrslit á Ólympíuleikum í fyrsta sinn. Vísir/Getty
Það verða Þýskaland og Svíþjóð sem mætast í úrslitaleik fótboltakeppni kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó.

Fyrr í dag unnu Svíar Brasilíu í vítakeppni og nú í kvöld báru Þjóðverjar sigurorð af Kanada með tveimur mörkum gegn engu.

Þessi sömu lið mættust í riðlakeppninni og þá hafði Kanada betur, 1-0. En nú komu Þjóðverjar fram hefndum.

Melanie Behringer kom Þýskalandi yfir með marki úr vítaspyrnu á 21. mínútu. Staðan var 1-0 í hálfleik og á 59. mínútu bætti Sara Däbritz öðru marki við og gulltryggði sigur Þjóðverja.

Þetta er í fyrsta sinn sem Þýskaland kemst í úrslit á Ólympíuleikum en þetta er eina stórmótið sem þýska liðið hefur ekki unnið. Þjóðverjar fengu brons á ÓL 2000, 2004 og 2008 en komust svo ekki á ÓL í London fyrir fjórum árum.

Úrslitaleikurinn fer fram á Maracana-vellinum í Ríó á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×