Fótbolti

Suarez sneri til baka eftir bitbannið og skoraði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Suarez í baráttu við David Luiz í leiknum í nótt.
Suarez í baráttu við David Luiz í leiknum í nótt. Vísir/Getty
Luis Suarez lék sinn fyrsta leik með landsliði Úrúgvæ eftir langt keppnisbann og skoraði í 2-2 jafntefli gegn Brasilíu í undankeppni HM 2018.

640 dagar eru liðnir síðan að Suarez lék síðast með liði Úrúgvæ en það var á HM 2014 í Brasilíu. Þá beit hann Giorgio Chiellini og fékk fyrir það níu leikja landsleikjabann.

Douglas Costa kom Brasilíu yfir eftir aðeins 39 sekúndur og Renato Augusto jók muninn í 2-0 á 26. mínútu.

Edinson Cavani minnkaði muninn fyrir Úrúgvæ og Suarez skoraði svo jöfnunarmarkið snemma í síðari hálfleik. Þar við sat.

Suarez fékk einnig fjögurra mánaða keppnisbann á sínum tíma en hann var þá leikmaður Liverpool. Hann missti til að mynda af allri Copa America keppninni með landsliði Úrúgvæ í fyrra og fyrstu fjórum leikjunum í undankeppni HM.

Úrúgvæ er í öðru sæti undankeppninnar í Suður-Ameríku með tíu stig, þremur á eftir toppliði Ekvador sem hefur ekki enn tapað leik í fyrstu fimm umferðunum. Brasilía er í þriðja sæti með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×