Enski boltinn

Neville gekk frá rúmum 15 milljónum punda er hann samdi við Valencia

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neville er mættur til Valencia.
Neville er mættur til Valencia. vísir/getty
Gary Neville hafnaði risasamningi við Sky Sports til að taka við spænska úrvalsdeildarliðinu Valencia.

Í gær var tilkynnt að Neville muni stýra Valencia út tímabilið en stjóri liðsins, Nuno, sagði starfi sínu lausu eftir 1-0 tap fyrir Valencia á sunnudaginn.

Þetta er fyrsta stjórastarf Neville sem hefur undanfarin ár getið sér gott orð sem álitsgjafi á Sky Sports.

Neville stendur að margra mati fremstur í flokki álitsgjafa og leikgreinanda en þáttur hans, Jamie Carragher og Ed Chamberlain, Monday Night Football, hefur notið mikilla vinsælda.

Forráðamenn Sky Sports vildu eðlilega halda Neville og buðu honum gull og græna skóga; fimm ára samning að verðmæti rúmlega 15 milljóna punda. Neville ákvað hins vegar að stökkva út í djúpu laugina og taka við Valencia sem er í 9. sæti spænsku deildarinnar.

Sky Sports bíður erfitt verkefni að finna arftaka Neville en nokkrir gestaálitsgjafar munu skiptast á að vera í Monday Night Football það sem eftir er tímabils.

Í dag birti The Telegraph áhugaverðan lista yfir mögulega arftaka Neville í Monday Night Football.

Þeir sem voru nefndir til sögunnar eru Jamie Redknapp, Paul Merson, Graeme Souness, Thierry Henry, Frank Lampard, Tim Sherwood og gamla brýnið Andy Gray sem var aðalálitsgjafi Sky Sports um margra ára skeið áður en honum var sagt upp störfum í janúar 2011. Umfjöllun Telegraph má lesa með því að smella hér.

Frank Lampard þykir álitlegur kostur í Monday Night Football.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×