Enski boltinn

Gary Neville stýrir Valencia út tímabilið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neville hefur verið aðstoðarþjálfari enska landsliðsins síðan 2012.
Neville hefur verið aðstoðarþjálfari enska landsliðsins síðan 2012. vísir/getty
Gary Neville hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri spænska úrvalsdeildarliðsins Valencia. Samningurinn gildir út tímabilið en þetta er í fyrsta sinn sem hinn fertugi Neville stýrir aðalliði.

Undanfarin ár hefur Neville, sem vann fjölda titla sem leikmaður Manchester United, verið aðstoðarþjálfari enska landsliðsins og þá hefur hann getið sér gott orð sem sparkspekingur á Sky Sports. Neville heldur áfram sem aðstoðarþjálfari Englands, samhliða starfi sínu hjá Valencia.

Phil Neville verður eldri bróður sínum til halds og trausts en hann hefur verið aðstoðarþjálfari Valencia frá því í sumar.

Nuno Espirito Santo sagði starfi sínu lausu eftir 1-0 fyrir Sevilla á sunnudaginn en Valencia hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel á tímabilinu og situr í 9. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar.

„Ég er gríðarlega spenntur að fá þetta tækifæri hjá Valencia,“ er haft eftir Neville á heimasíðu félagsins. „Valencia er stórt félag og ég þekki það af eigin reynslu hversu ástríðufullir stuðningsmenn liðsins eru. Ég hlakka til að vinna með þeim hæfileikaríka hópi leikmanna sem eru hjá félaginu.“

Neville hefur formlega störf 6. desember en þremur dögum síðar stýrir hann liðinu í fyrsta sinn, gegn Lyon í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×