Enski boltinn

Kane með þrennu í sigri Tottenham | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane skoraði þrennu í dag.
Harry Kane skoraði þrennu í dag. Vísir/Getty
Sex leikjum er lokið í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Manchester City vann öruggan sigur á West Brom í fyrsta leik dagsins, Aston Villa og Swansea gerðu markalaust jafntefli á Villa Park og Arsenal vann Newcastle á útivelli.

Harry Kane átti enn einn stórleikinn þegar Tottenham vann torsóttan 4-3 sigur á botnliði Leicester City á heimavelli.

Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan

Kane skoraði þrjú fyrstu mörk Tottenham og er því orðinn markahæstur í deildinni með 19 mörk, einu meira en Diego Costa hjá Chelsea.

Kane kom Tottenham yfir á 6. mínútu og bætti öðru marki við sjö mínútum síðar. Jamie Vardy minnkaði muninn í 2-1 fyrir hálfleik með sínu fyrsta marki frá því í sigrinum fræga á Manchester United 21. september 2014.

Wes Morgan, fyrirliði Leicester, jafnaði svo metin með skalla eftir fyrirgjöf Matt James á 50. mínútu. En Kane skaut upp kollinum á 64. mínútu þegar hann skoraði sigurmark Tottenham úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Danny Rose.

Tottenham komst í 4-2 þegar Jeffrey Schlupp setti boltann í eigið mark á 85. mínútu en David Nugent gaf sínum mönnum smá von þegar hann minnkaði muninn í 4-3 á lokamínútunni.

Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og Tottenham fagnaði sigri. Spurs er í 7. sæti með 53 stig en Leicester situr í botnsætinu með 19 stig og er komið langleiðina niður í B-deildina.

Southampton hélt enn og aftur hreinu þegar liðið lagði Burnley á heimavelli með tveimur mörkum gegn engu.

Shane Long kom Dýrlingunum yfir á 37. mínútu og á þeirri 58. setti Jason Schackell boltinn í eigið mark.

Þetta var í 14. sinn sem Southampton heldur marki sínu hreinu í vetur en liðið er í 6. sæti með 53 stig, þremur stigum frá Meistaradeildarsæti. Burnley er í 18. sæti deildarinnar, einu stigi frá öruggu sæti.

Þá vann Crystal Palace góðan endurkomusigur á Stoke á Brittania, 1-2.

Mame Biram Diouf kom heimamönnum yfir á 14. mínútu en Glenn Murray jafnaði metin úr vítaspyrnu þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þetta var fjórða mark Murray í síðustu fjórum leikjum Palace.

Það var síðan Wilfried Zaha sem tryggði gestunum stigin þrjú með marki á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Með sigrinum komst Palace upp fyrir Newcastle í 11. sæti deildarinnar en lærisveinar Alans Pardew hafa unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum. Stoke er í 9. sæti með 42 stig, sex stigum meira en Palace.

Tottenham 1-0 Leicester Tottenham 2-0 Leicester Tottenham 2-1 Leicester Tottenham 2-2 Leicester Tottenham 3-2 Leicester Tottenham 4-2 Leicester Tottenham 4-3 Leicester



Fleiri fréttir

Sjá meira


×