Körfubolti

LeBron opnar sig um sam­bandið við Jordan: „Við tölum ekki saman“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James og Michael Jordan hittust í hálfleik á stjörnuleik NBA 2022 þar sem 75 bestu leikmenn í sögu deildarinnar voru heiðraðir.
LeBron James og Michael Jordan hittust í hálfleik á stjörnuleik NBA 2022 þar sem 75 bestu leikmenn í sögu deildarinnar voru heiðraðir. getty/Kevin Mazur

Körfuboltamaðurinn LeBron James segir að þeir Michael Jordan ræðist ekki mikið við en vonar að það breytist þegar hann hættir að spila.

LeBron var í viðtali í The Pat McAfee Show þar sem hann fór um víðan völl. Hann ræddi meðal annars um samband sitt við Jordan, manninn sem hann er svo oft borinn saman við.

„Við tölum ekki saman,“ sagði LeBron. „Því ég er enn að spila. Ég er enn einbeittur á að spila.“

LeBron vonast til að þeir Jordan verði nánari þegar hann leggur skóna á hilluna og samband þeirra verði svipað eins og samband Jordans og Kobes Bryant.

„Ég vona það. Það fyndna er að við Kobe áttum ekkert alvöru samband. Við vorum saman í Ólympíuliðinu og áttum frábært samband þar. Ólympíuliðin 2008 og 2012 en það var alltaf samkeppni,“ sagði LeBron og bætti við að samband þeirra Kobes hafi orðið nánara eftir að hann gekk í raðir Los Angeles Lakers.

LeBron rifjaði jafnframt upp þegar þeir Jordan hittust í hálfleik á Stjörnuleiknum 2022.

„Það var frábært. Það var hrein virðing og aðdáun. Ég spila í treyju númer 23 út af MJ. Hann veitti mér innblástur sem krakki í Akron, Ohio, þar sem lítið var um slíkt,“ sagði LeBron.

Þrátt fyrir að vera orðinn fertugur er LeBron enn í fullu fjöri. Í vetur er hann með 24,9 stig, 8,1 frákast og 8,4 stoðsendingar að meðaltali í leik með Lakers.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×