Körfubolti

Púað á Butler í endurkomunni til Miami

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jimmy Butler átti erfitt uppdráttar á sínum gamla heimavelli.
Jimmy Butler átti erfitt uppdráttar á sínum gamla heimavelli. getty/Rich Storry

Jimmy Butler átti enga draumaendurkomu til Miami þegar Golden State Warriors steinlá fyrir Heat, 112-86, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Butler var skipt frá Miami til Golden State í byrjun síðasta mánaðar. Skilnaðurinn við Miami var ekki beint í góðu en félagið setti Butler meðal annars í bann áður en honum var skipt til Golden State.

Fyrir leikinn heiðraði Miami Butler samt með fjörutíu sekúnda myndbandi með helstu tilþrifum hans fyrir liðið. Hann gekk í raðir þess 2019 og fór tvívegis með því í úrslit um meistaratitilinn.

Eftir að myndbandið hafði verið spilað og Butler var kynntur til leiks púuðu áhorfendur í Kaseya Center á hann. Þeir héldu því áfram eftir að leikurinn fór af stað og Butler fékk að heyra það í hvert einasta sinn sem hann snerti boltann.

Butler skoraði aðeins ellefu stig og tók sex fráköst í leiknum sem Miami vann örugglega. Stephen Curry lék ekki með Golden State vegna meiðsla.

„Mér þykir mjög vænt um stuðningsmennina. Myndbandið var gott. Ég segi ekki að það hafi verið miklar tilfinningar. Ég var í jafnvægi þegar ég fór inn í leikinn. Við vildum vinna en þetta fór ekki eins og við ætluðum,“ sagði Butler eftir leikinn.

„Með myndbandinu rifjuðust upp fyrir mér góðir tímar þegar ég klæddist treyju Miami Heat. Ég er þakklátur fyrir þennan tíma, hann hjálpaði mér að verða leikmaðurinn sem ég er, einstaklingurinn sem ég er í deildinni, liðsfélagi, leiðtogi, allt það. Ég held að ég væri ekki sá sem ég er í dag án tækifærisins hér.“

Bam Adebayo skoraði 27 stig fyrir Miami en sex leikmenn liðsins skoruðu tíu stig eða meira. Miami-menn hittu úr sautján af 25 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Golden State hefur gengið vel eftir að Butler kom til liðsins. Í nítján leikjum með Stríðsmönnunum hefur hann skorað 17,6 stig, tekið 6,1 frákast og gefið 6,5 stoðsendingar að meðaltali.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×