Erlent

Helsti keppi­nautur Erdogan um for­seta­stólinn hand­tekinn í Istanbul

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla er með mikinn viðbúnað við bygginguna þar sem Imamoğlu er haldið.
Lögregla er með mikinn viðbúnað við bygginguna þar sem Imamoğlu er haldið. AP/Francisco Seco

Lögregla á Tyrklandi handtók í gær Ekrem Imamoğlu, borgarstjóra Istanbul, vegna rannsóknar á ásökunum um spillingu og tengsl við hryðjuverkastarfsemi.

Handtökuskipanir hafa verið gefnar út á hendur 100 öðrum í tengslum við málið, samkvæmt ríkisfréttastofunni Anadolu Agency.

Stjórnarandstæðingar segja handtökuna pólitíska en gert var ráð fyrir því að Imamoğlu yrði útnefndur forsetaefni Repúblikanaflokksins (CHP) þann 23. mars næstkomandi. Özgür Özel, formaður CHP, segir handtökuna ekkert annað en valdarán.

Fjöldafundir hafa verið bannaðir í Istanbul í fjóra daga, líklega til að koma í veg fyrir mótmæli vegna handtökunnar, og þá hafa stjórnvöld takmarkað aðgengi landsmanna að samfélagsmiðlum.

Borgarstjórinn nýtur mikilla vinsælda í heimalandi sínu.Getty/Oliver Berg

Áður en Imamoğlu var handtekinn var hann sviptur háskólagráðu sinni við Istanbul University en háskólagráða er eitt af þeim skilyrðum sem forsetaframbjóðendur þurfa að uppfylla.

„Það styttist í þá daga þar sem þeir sem tóku þessa ákvörðun verða látnir sæta ábyrgð af sögunni og fyrir dómstólum,“ sagði Imamoğlu þá á samfélagsmiðlum. „Barátta fólksins, sem þyrstir í réttlæti, lög og lýðræði, verður ekki stöðvuð.“

Imamoğlu hefur heitið því að halda baráttu sinni gegn Recep Tayyip Erdogan forseta áfram en Guardian hefur eftir Wolfgang Piccoli, sérfræðingi hjá Teneo, að gráðusviptingin sé til marks um að Erdogan geri sér grein fyrir því að hann geti ekki unnið í sanngjörnum kosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×