Skoðun

Hver reif kjaft við hvern?

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson skrifar

Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um alræmdan fréttamannafund sem fram fór í Hvíta húsinu föstudaginn 28.febrúar síðastliðinn. Hann er þegar kominn á spjöld sögunnar. Á honum voru tveir megin gerendur; Donald Trump, forseti Bandaríkjanna og Volodimír Zelenský, forseti Úkraínu, en þó með veigamikilli innkomu varaforsetans, J.D.vance. En eins og margir vita fór fór þessi blaðamannafundur afar illa, hann gjörsamlega fór í klessu.

Ástæða þessarar greinar eru í raun ummæli sem Dr. Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, lét falla í viðtali á Samstöðinni, þar sem hann og Gunnar Smári Egilsson voru að ræða alþjóðamál. Efnislega sagði Hilmar að Zelenský hefði verið að rífa kjaft í Hvíta húsinu. En er það rétt? Reif Zelenský kjaft við Donald Trump? Í rauninni er því rannsóknarspurning þessarar greinar: Hver reif kjaft við hvern í Hvíta húsinu þann 28.febrúar?

Mistök Úkraínumanna

Það er til upptaka af fundinum sem greinarhöfundur hefur farið yfir. Hún er mjög athyglisverð. En í fyrsta lagi vil ég segja að þessi fundur hefði aldrei átt að fara fram með þessum hætti og sennilega eru það verstu mistökin sem Zelenský og hans teymi gerðu, þ.e. að samþykkja það.

Því það sést meðal annars á upptökunni að Zelenský virkar þreyttur, sennilega með „þotuþreytu“ eftir að hafa flogið frá Úkraínu, til Bandaríkjanna, en sagt er að hann sofi um 4-5 tíma á sólarhring vegna stríðsins.

Því má svo auðvitað bæta við að fáir einstaklingar í heiminum hafa verið undir jafn mikilli pressu undafarin ár, þ.e.a.s eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu og hófu þar með gereyðingarstríð gegn landinu. Eða eins og Zelenský sagði efnislega um Rússa (Pútín) á fundinum; ... „þeir hófu þetta stríð, þeir réðust inn í landið okkar og þeir eiga að hætta.“ Þetta er auðvitað kjarni málsins.

Framan af fundinum gengur hann reyndar prýðisvel og það fer vel á með þeim forsetunum. En það er á 18.mínútu þegar fréttamaðurinn Brian Glenn, frá „Real America‘s Voice“ sem er svokölluð hægrisinnuð-kapal-sjónvarpsstöð, spurði Zelenský hvers vegna hann væri ekki í jakkafötum? Á undan hafði hann spurt Trump að því hvort hann yrði forseti sem færi á spjöld sögunnar sem friðarforseti eða forseti sem myndi leiða Bandaríkin inn í nýja styrjöld. Trump sagðist vona að að hans yrði minnst sem „friðarforseta.“

Þriðja heimsstyrjöldin?

En það er á þessu augnabliki á fundinum sem „þriðja heimsstyrjöldin“ kemur upp sem hugtak: „Þetta gæti leitt til þriðju heimsstyrjaldarinnar,“ sagði Donald Trump í svarinu, athugið – Trump segir þetta. Var það skipulagt – eða var þetta bara svona ein af hugdettum forsetans, en hann virðist ekki vera í neinum vandræðum með að fá þær!

Það var augljóst að Zelenský var brugðið við þessa spurningu um jakkafötin, átti ekki von á henni, en hann sagðist ætla að klæðast jakkafötum eftir fundinn, auðvitað var meiri dagskrá fyrirhuguð í þessari heimsókn, af henni varð þó aldrei þar sem það sauð upp úr í lok fundarinns.

Það var hlegið að spurningunni um jakkafötin, reyndar bætti fréttamaðurinn við þeirri spurningu hvort Zelenský ætti jakkaföt, nánast eins og hann væri að taka við krakka. Þess má geta að samkvæmt New York Times á þessi fréttamaður vingott við þingkonuna og repúblíkanann Marjorie Taylor Greene, sem er einn mesti öfgaþingmaður Bandaríkjanna um þessar mundir.

Reyndar er það merkileg staðreynd að skömmu eftir þetta þá segir Donald Trump; „Mér líkar hvernig þú ert klæddur („I like your clothing“) og klappar Zelenský á bakið.

Einnig má svo benda á, svona í framhjáhlaupi, að nú valsar Elon Musk um Hvíta húsið og ekki er hann klæddur í jakkaföt, heldur yfirleitt svartklæddur og oftar en ekki í einhverjum „nördalegum“ t-bol. Enginn gerir athugasemd við það. Sýnir hann þá ekki Hvíta húsinu vanvirðingu? Það virðist því ekki vera sama, Jón eða séra Jón.

„Pútín hatar okkur“

Í framhaldinu ræðir Zelenský hatur Pútíns á Úkraínu og úkraínsku þjóðinni; „Þetta snýst ekkert um mig, Pútín hatar okkur,“ segir Zelenský. Sem er alveg rétt. Vladirmír Pútín hefur haft það sem markmið frá upphafi innrásarinnar að gera tilvist úkraínsku þjóðarinnar, sem hann segir reyndar ekki vera til, eins erfiða og hægt er. Þetta er í raun eins og einhverskonar hefnd. Og er hægt að hafa meira hatur og fyrirlitningu á þjóð en að segja að hún sé ekki til?

Fram að 36. mínútu gengur fundurinn vel, þá blandast inn í Marco Rubio, utanríkisráðherra, og þá heyrist einnig í fyrsta sínn í J.D.Vance varaforseta. Þeir ræða meðal annars málfrelsi sem einn blaðamannanna spurði um. En hingað til, engin vandamál að því er virðist.

Í framhaldi af þessu ræðir Trump hatur Zelenskýs á Pútín, sem hann segir skiljanlegt, en Trump sagðist ekki geta tekið afstöðu með öðrum hvorum; ...,,ég tek afstöðu með Bandaríkjunum, ég er með Bandaríkjunum, Evrópu og heiminum og ég vil enda þetta (stríð).“

Á þessum tímapunkti stígur J.D. Vance aftur inn í umræðuna og segir forsetann standa í samningaviðræðum og að það geri Bandaríkin að frábæru landi.

Hvers konar samningaviðræður?

Í kjölfarið á þessu svarar Zelenský og rekur í raun söguna frá hernámi Krímskaga 2014 (Trump sagði 2015), og allt fram til 2022, samskipti hans við Pútín, friðarsamninga (Minsk 1 og 2) og fangaskipti. Áður hafði Zelensky einnig minnst á öll samningabrot Pútíns. „Hvers konar samningaviðræður ertu að tala um,“ spyr Zelenský J.D Vance og á þessi spurning auðvitað fyllilega rétt á sér. En það er á þessum tímapunkti sem virðist allt fara úr böndunum.

Það sem fylgir síðan á eftir er í raun að J.D. Vance (sem hefur aldrei komið til Úkraínu) hraunar yfir Zelenský, helst vegna þess að Zelenský hafi á kosningafundi í Pennsylavaníu stutt demókrata. Það má auðveldlega skilja að það sé rót þeirrar gremju sem blossar upp í lok fundarins. J.D. Vance vænir Zelenský einnig um vanþakklæti í garð „þjóðarinnar sem er að reyna að bjarga þjóð þinni frá gereyðingu,“ eins og hann komst að orði.

Þess verður þó að geta að Zelenský og þjóð hans hafa margoft þakkað Bandaríkjamönnum fyrir þann stuðning sem Úkraínu hafi fengið, eins og hann sagði sjálfur í þessum orðaskiptum.

„Þú verður að sýna meira þakklæti og þú hefur ekki spilin á hendi,“ hélt Trump svo áfram og ásakaði Zelenský um að „leika sér með þriðju heimsstyrjöldina“, hugtakið sem hann sjálfur kom með inn í umræðuna.

Þetta er auðvitað fjarstæðukennd ásökun, en það má hins vegar vel vera að Zelenský hafi ekki réttu spilin á hendi, enda staða Úkraínumanna þröng og hefur verið lengi. En, ef það er einhver að leika sér að þriðju heimstyrjöldinni, þá er það bóndinn í Kreml, hann hóf þessa innrás og enginn annar.

Í raun er það nánast kraftaverk hvað Úkraínumenn hafa haldið út gegn einu mesta hernaðarveldi heims, sem hefur dælt inn hermönnum á víglínuna og fórnað þeim í þúsundavís í svokölluðum „kjötkvörnum“ (þar sem hermenn eru sendir í smærri flokkum í raun út í rauðan dauðann, ekki ósvipað og Stalín gerði í seinni heimsstyrjöldinni). Enginn veit nákvæmlegja tölu látinna hermanna í stríðinu, en þeir eru mjög margir.

Fundinum lýkur svo með rausi a la Trump um feðgana Joe og Hunter Biden, en hatur hans á Biden-fjölskyldunni hans virðist vera botnlaust. Þetta er í raun eins og þráhyggja.

Allskyns klæðnaður í Hvíta húsinu

Hvaða máli skipti klæðnaður Zelenský? Til eru allskonar fréttamyndir af fulltrúum ýmissa ríkja í Hvíta húsinu. Til dæmis er til myndir af Ronald Reagan (forseti 1981-1989) þar sem hann er að taka á mót afgönskum „mujaheedin“-skæruliðum, sem voru að berjast gegn Rússum í Afganistan á 9. áratug síðustu aldar, en Rússar réðust inn í Afganistan árið 1979 og voru ártug í stríði þar.

Á myndinni eru fulltrúar skæruliðanna á sandölum og í hefðbundnum afgönskum klæðnaði. Þar var ekkert verið að röfla um jakkaföt og sennilega meira rætt um Stinger-eldflaugar, sem gögnuðust afgönskum skæruliðum mjög vel gegn Rússum.

Þegar Oslóar-samningarnir voru undirritaðir árið 1993, á milli Ísraels og Palestínumanna, þá undir forystu PLO-leiðtogans Yassir Arafat, klæddist Arafat hefðbundnum grænlitum herklæðnaði og bar sjal, tákn arbískrar þjóðernishyggju, á höfði. Þá var heldur ekkert verið að ræða um klassísk jakkaföt.

En af hverju var Zelenský þá klæddur eins og raun ber vitni? Í grein á vef Politco er gerð grein fyrir því, en í sem stystu máli snýst þetta um að landið er að heyja blóðugt stríð fyrir lífi sínu og með klæðnaði sínum er Zelenský að sýna stuðning sinn við her landsins og samstöðu með úkraínsku þjóðinni.

Hann sýnir einnig með þessum klæðnaði að hann er ekki hluti af yfirstétt (elítu), heldur er hann fulltrúi fólksins, úkraínskrar alþýðu. Sem stendur er úkraínski herinn sú stofnun sem nýtur hvað mest trausts hjá almenningi, en stuðningur við Zelenský er einnig mjög hár, eða um 68% samkvæmt nýlegri könnun, sem var gerð eftir þennan ótrúlega fund (eða uppákomu) í Hvíta húsinu.

Hégómaræði?

Málið er að til valda eru komnir menn í Bandaíkjunum, sem eru uppfullir af sjálfum sér og haldnir að því er virðist botnlausum hégóma. Donald Trump hegðar sér eins og kóngur og krefst takmarkalausrar hollustu. Allt þarf líka að vera fallegt „beautiful“ – meira að segja símtöl eru „bjútífúl“ (afsakið slettuna). Að hlutir líti vel út sjónrænt virðist vera afar mikilvægt, enda frægð Trump að stórum hluta byggð á sjónvarpi, þáttum hans „The Apprentice“-Lærlingurinn. Þetta er tónninn sem hefur verið sleginn.

Nýjustu fréttir (hlutir gerast mjög hratt hjá og í kringum Trump), herma að samband Úkraínu og Bandaríkjanna hafi heldur skánað, þó svo að atburðir síðustu daga og vikna hafi verið með þeim hætti að halda mætti að handritið að þeim hafi verið skrifað í Moskvu.

Það gæti breyst, enda Trump þannig forseti að hann segir eitt í dag og annað á morgun. Enginn veit hvernig Trump mun hegða sér, hann slær í og úr. Allt á þetta að vera hluti af einhverri „samningatækni“ – enda Trump sjálfur sífellt að hæla sér fyrir samningafærni sína. Það er þó allur gangur á því og t.d. alls ekki útséð með hvort hann náí samningum við t.d. Rússa.

Hegðun og ummæli Trumpa skapa gríðarlegt óöryggi (og spennu) í alþjóðakerfinu, sem í raun er nánast búið að snúa á hvolf á þeim stutta tíma frá því að hann tók við völdum. Það er með hreinum ólíkindum og er í raun efni í aðra grein. Undirstöður alþjóðakerfisins leika nú á reiðiskjálfi.

Nýtt vígbúnaðarkapphlaup?

Við blasir einnig hrikaleg hernaðaruppbygging, sennilega um allan heim og kannski það sem kalla mætti nýtt „vígbúnaðarkapphlaup“. Slíkt mun auka pressu á fjárlög þeirr ríkja sem nú ætla að eyða meira til hernaðarmála. Á móti verður svo ef til vill skorið niður í öðrum kerfum samfélagsins, t.d. í velferðarmálum. Þá verður sennilegt að þróunaraðstoð muni verða látin mæta afgangi. Þar með mun að öllum líkindum bilið á milli ríkra og fátækra ríkja, sem og ójöfnuður, aukast.

En svarið við spurningunni í upphafi, hver er hún? Fundurinn stóð í um 50 mínútur. Af þeim talaði Donald Trump sennilega um 75% tímans, Zelenský náði kannski 20% og J.D. Vance um 5%. En það var í raun á þessum fáu „JD-prósentum“ sem fundurinn sprakk. Hvers vegna það gerðist, fáum við kannski aldrei fulla skýringu á, en það er augljóst að varaforseti Bandaríkjanna hefur ekki mikið álit á Zelenský. Sennilega nokkuð sem hefur verið að þróast yfir tíma, en í fyrra skrifaði Vance grein í The New York Times, þar sem hann talaði í raun gegn stuðningi við Úkraínu. Kannski er honum alveg sama um Úkraínu og baráttu þjóðarinnar gegn ofureflinu?

Greip einu sinnu fram í fyrir Trump

Zelenský greip einu sinni fram í fyrir Trump. Fór hann yfir einhverja línu þar? Er það bannað? Er það kannski bara Trump sem hefur leyfi til þess að grípa fram í fyrir fólki, gera lítið úr því og niðurlægja? Hann gerir að minnsta kosti nóg af því. Og var J.D. Vance svona móðgaður fyrir hönd yfirhöfðingjans? Fáum líklega ekki að vita það. En það var engu líkara en að þeir Trump og Vance vildu bókstaflega tæta Zelenský í sig, sem og þeir eiginlega gerðu. Ótrúleg hegðun. Var lagt upp í þennan fund með það að leiðarljósi? Enn ein áleitin spurning um fundinn. Í lok hans yfirgaf síðan Zelenský Hvíta húsið í hasti, fundurinn hafði í raun sprungið í tætlur fyrir framan í heimsbyggðina, í beinni útsendingu.

Eins og áður sagði var það afar óheppilegt að þessi fundur fór fram með þessum hætti, en vonandi batna samskipti Úkraínu og Bandaríkjanna. Það er þörf á því. Þetta „fundarsnið“ virðist þó vera komið til að vera, þar sem menn sitja fyrir framan fréttamenn á skrifstofu forsetans og þar sem hann sjálfur fer nánast með einræður. Enn eitt dæmið um að vera uppfullur af sjálfum sér.

Fyrir um 250 árum börðust íbúar nýlendanna 13 fyrir sínu eigin lífi og sjálfstæði, gegn óréttlátum kóngi, Georgi III. Svipað eru Úkraínumenn að gera þessa stundina, nú gegn einum versta einræðisherra heimsins, Vladimír Pútín. Það ætti því að vera sameiginlegur skilningur á milli landanna og menn ættu að geta sett sig í spor hvors annars. Nýlendubúarnir höfði sigur og úr urðu Bandaríkin. Úkraína er að berjast fyrir sjálfstæði og að halda eigin ríki á lífi. Þeir eiga ótvíræðan rétt til þess. En hvernig þetta allt saman fer, mun tíminn leiða í ljós.

Höfundur er stjórnmálafræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×