Handbolti

„Betri ára yfir okkur“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Berglind Þorsteinsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Berglind Þorsteinsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. vísir/Viktor Freyr

„Mér fannst bara stemningin hjá okkur vera betri eiginlega allan leikinn,“ sagði Berglind Þorsteinsdóttir, leikmaður Fram, eftir sigur gegn Val í uppgjöri toppliðanna í Olís-deild kvenna í kvöld. Lauk leiknum með tveggja marka sigri Fram 28-26.

„Ég fann það bara að það var svona betri ára yfir okkur og vorum ákveðnar í það að vinna aftur eftir bikarleikinn og sýna að við getum unnið þær tvisvar sinnum í röð,“ sagði Berglind en ekki er langt síðan að þessi lið mættust í undanúrslitum Powerade bikarsins þar sem Framarar lögðu Val einnig.

Fram liðið er með blóð á tönnunum ef marka má orð Berglindar sem segir liðið enn þá svekkt eftir að hafa tapað bikarúrslitaleiknum gegn Haukum á dögunum. Síðan þá hafa stelpurnar í Fram unnið bæði Hauka og Val í Olís-deildinni og því mikill hugur í liðinu.

„Já, við vitum að við eigum alveg enn þá inni eftir bikarleikinn og við erum enn þá ógeðslega svekktar að hafa ekki unnið titilinn og við vitum að við getum unnið öll þessi lið ef við spilum bara okkar leik og höldum uppi stemningunni sem mér fannst við gera í dag. Allt á réttri leið.“

Aðeins tveimur stigum munar á toppliði Vals og Fram í töflunni, en Valskonur standa einnig betur að vígi í innbyrðis viðureignum liðanna. Berglind segir það vera draum að ná deildarmeistaratitlinum en er ekki vongóð um það að Valskonum misstígi sig á lokasprettinum.

„Ef við ætlum að ná honum þá verðum við að treysta á að Valur tapi einhverjum leikjum, þannig að það er svolítið langsótt en auðvitað væri það draumur.“

Að lokum segir Berglind liðið vera spennt fyrir úrslitakeppnina.

„Tilfinningin er mjög góð og við erum búin að sýna það að við erum að standa í þessum liðum og þetta eru hörku leikir. Þannig að tilfinningin er mjög góð fyrir úrslitakeppninni ef við spilum svona áfram og höldum í þessa stemningu og spilum svona varnarleik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×