Skoðun

Betri starfs­að­stæður og skil­virkari há­skóli

Silja Bára Ómarsdóttir skrifar

Háskóli Íslands er stærri en hann hefur nokkru sinni verið. Á þessari öld hefur námsleiðum farið sífjölgandi og fjöldi nemenda hefur tvöfaldast. Á meðan hefur kennurum hins vegar aðeins fjölgað um þriðjung. En þó álagið í kennslu hafi stóraukist birta kennarar tvöfalt meira nú en þeir gerðu. Starfsfólk háskólans er þannig orðið mun afkastameira en áður og á sama tíma hefur álagið á háskólakennara aukist fram úr hófi. Helsta ástæða þessa er vanfjármögnun háskólans sem hefur hindrað nauðsynlega fjölgun akademísks starfsfólks við skólann en einnig hafa rannsóknir á starfsumhverfi í Háskóla Íslands, sem og kannanir á líðan nemenda, sýnt að þar þarf að gera betur. Inngrip til þess að bæta líðan hafa hingað til beinst að einstaklingum þótt vitað sé að stofnanainngrip séu markvissari og skilvirkari.

Kjarninn í Háskóla Íslands er fólkið sem þar starfar. Það er með öllu óviðunandi að þriðjungur akademísks starfsfólks sé á mörkum kulnunar. Stórtækra breytinga er þörf ef skólinn á áfram að vera sú öfluga menntastofnun sem hann hefur verið til þessa. Sem rektor mun ég berjast fyrir aukinni fjármögnun Háskóla Íslands og beita mér fyrir því að:

Stórátak verð gert í fjölgun fastráðinna akademískra starfsmanna til að dreifa megi kennsluálagi og gera akademísku starfsfólki kleift betur sinnt sinni kjarnastarfsemi; rannsóknum og kennslu.

Taka út starfsumhverfi kennara og nemenda í háskólanum með það að markmiði að vinna að úrbótum. Rýna þarf fyrirliggjandi gögn, svo sem gæðaskýrslur og rannsóknir á starfsaðstæðum, og afla þeirra sem upp á skortir. Auk þess þarf að læra af því sem best gerist og gengur í erlendum háskólum. Vinna þarf að úrbótum bæði í grundvelli skólans í heild, á sviðum og í deildum, í virkri samvinnu við starfsfólk.

Skilvirkni í stoðþjónustu verði bætt í samráði við starfsfólk. Draga þarf úr óþarfa skriffinnsku og efla rafrænar lausnir.

Háskóli Íslands er mikilvægasta stofnun íslensks þjóðfélags og gríðarlega öflug sé litið til smæðar þjóðarinnar. En skólinn getur orðið enn öflugri með vel hugsuðum og útfærðum breytingum. Til þess býð ég mig fram sem rektor.

Höfundur er prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og frambjóðandi til embættis rektors Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×