Erlent

Páfi ekki lengur í bráðri lífs­hættu vegna lungna­bólgu

Kjartan Kjartansson skrifar
Nunna heldur á mynd af Frans páfa og biður fyrir honum á Péturstorgi í Páfagarði. Páfi hefur legið þungt haldinn á sjúkrahúsi í tæpan mánuð.
Nunna heldur á mynd af Frans páfa og biður fyrir honum á Péturstorgi í Páfagarði. Páfi hefur legið þungt haldinn á sjúkrahúsi í tæpan mánuð. AP/Andrew Medichini

Læknar Frans páfa segja hann ekki lengur í bráðri lífshættu vegna lungnabólgu í báðum lungum. Hann þarf þó að liggja áfram á sjúkrahúsi þar sem hann hefur dvalið í hátt í mánuð.

Páfi er nú sagður í stöðugu ástandi og hafa sýnt framfarir síðustu daga. Til marks um bætta heilsu er hann sagður hafa fylgst með undirbúningi Páfagarðs fyrir páskaföstuna sem stendur yfir í vikunni í gegnum fjarfundarbúnað. Hann fær þó ennþá súrefni yfir daginn og sefur með öndunargrímu, að sögn AP-fréttastofunnar.

Læknarnir vilja halda Frans, sem er 88 ára gamall, áfram í lyfjameðferð á sjúkrahúsi  þar sem hann er enn veikburða og á það á hættu að fá aðra fylgikvilla. Þá þarf hann að öllum líkindum að gangast undir endurhæfingu.

Frans var lagður inn á sjúkrahús með það sem var talið berkjubólga á valentínusardaginn 14. febrúar. Óttast var um líf hans eftir að hann fékk lungnabólgu í bæði lungum. Hann var með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóm en hluti af öðru lunga hans var fjarlægt þegar hann var ungur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×