Skoðun

Kol­brún lætur verkin tala og fær mitt at­kvæði

Vanda Sigurgeirsdóttir skrifar

Ég styð Kolbrúnu eindregið til embættis rektors og hvet aðra til að gera slíkt hið sama. Ég hef þekkt Kolbrúnu í meira en áratug og þekki hennar góðu kosti af eigin raun. Hún er gríðarlega dugleg, hugmyndarík og fylgin sér, sem má sjá af öllum þeim breytingum og framförum sem hún hefur staðið fyrir á Menntavísindasviði.

Flutningur í Sögu og önnur umbótaverkefni

Sum af þeim verkefnum sem Kolbrún hefur ásamt breiðum hópi samstarfsfólks tekist að leiða til lykta, eru eftir því sem ég best veit á meðal mest krefjandi úrlausnarefna sem nokkur stjórnandi Háskólans hefur þurft að glíma við á undanförnum árum. Má þar ekki síst nefna flutning Menntavísindasviðs í Sögu sem lokið verður við áður en næsti rektor tekur við embætti 1. júlí næstkomandi. Þetta er risa verkefni og við munum sjá árangurinn af þessari vinnu á næstu misserum, í bættri aðstöðu kennara og nemenda, auknum tækifærum til að vinna með kollegum okkar af öðrum fræðasviðum, og nærsamfélaginu í Vesturbænum. Nefna mætti fjölmörg önnur stór verkefni sem Kolbrún hefur unnið að á undanförum árum, s.s. að stórbæta fjárhag sviðsins, ekki síst sjálfsaflafé, fjölga nemendum, innleiðingu raunfærnimats og styrkingu rannsóknarinnviða sviðsins. Samhliða krefjandi stjórnunarstörfum hefur Kolbrún ræktað rannsóknarsamstarf við fræðifólk frá mörgum heimsálfum og dregið til landsins fjölda alþjóðlegra sérfræðinga á sviði menntunar. Þá átti hún frumkvæðið af einu af nýstárlegustu námskeiðum sviðsins, Eldur og ís, þar sem nemendur í háskólans hafa fengið tækifæri til að kynnast landi sínu undir leiðsögn færustu sérfræðinga.

Kolbrún nær árangri

Kolbrún er öflugur stjórnandi, virkur rannsakandi, og vel liðinn kennari sem starfar af heilindum. Hún hefur sýnt og sannað í störfum sínum sem sviðsforseti hve öflugur leiðtogi hún er. Undir hennar stjórn hefur Menntavísindasvið blómstrað og nýtur sviðið sífellt meiri virðingar innan og utan skólans. Mér finnst mikilvægt að skoða verk fólks, ekki bara hvað er sagt. Kolbrún hefur sýnt það með verkum sínum að hún er rétta manneskjan til að leiða Háskóla Íslands næstu árin.

Höfundur er lektor í tómstunda- og félagsmálafræði.




Skoðun

Skoðun

Lokum.is

Alma Hafsteinsdóttir skrifar

Sjá meira


×