Innlent

Breyta reglum um hljóðfærafar­angur

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Play hefur uppfært reglur sínar um hljóðfæri og farangur.
Play hefur uppfært reglur sínar um hljóðfæri og farangur. Vísir/Vilhelm

Flugfélagið Play hefur breytt reglum varðandi hljóðfæraflutninga með flugferðum á vegum félagsins. Fiðlur, básúnur og önnur sambærileg hljóðfæri eru nú velkomin í handfarangurshólfið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi íslenskra hljómlistarmanna, en þar segir að stjórn klassískrar deildar félagsins hafi staðið að þessum breytingum í samráði við flugfélagið.

Pétur Björnsson fiðluleikari lenti í miklu veseni þegar hann ætlaði að taka fiðlu sína sem handfarangur með flugi Play í síðasta mánuði. Hann hafði í gegnum árin ferðast mikið með fiðluna og var hissa á því að hafa ekki mátt taka hana með í handfarangur.

Í uppfærðum reglum Play segir að ferðast megi með hljóðfæri í handfarangri passi þau í farangursgeymsluna fyrir ofan sætin í flugvélinni. Hægt sé að miða við að hljóðfærið sé ekki stærra en gítar.

Hljóðfæri sem passi alla jafna í farangursgeymsluna séu altsaxófónn í kassa, víólukassi, básúna, fiðla og lítil harpa.

Þá sé hægt að innrita hljóðfærið sem venjulegan sérfarangur eða stóran sérfarangur, eða bóka sæta fyrir hljóðfærið.

Nánari upplýsingar um nýju reglurnar má finna á síðu Play.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×