Upp­gjörið: FH - Aftur­elding 34-29 | Heima­menn endur­heimtu topp­sætið

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson er Herra FH.
Ásbjörn Friðriksson er Herra FH. Vísir/Hulda Margrét

FH lagði Aftureldingu með fimm marka mun í Olís-deildar karla í handbolta. Lokatölur í Kaplakrika 34-29 og FH-ingar mættir í toppsætið á ný. 

Afturelding mætti til Hafnarfjarðar í kvöld þar sem þeir mættu FH í Olís-deild karla. Þetta var síðasti leikurinn í 20. umferð deildarinnar og fyrir leik voru FH-ingar í 2. sæti deildarinnar en gátu endurheimt toppsætið með sigri. Afturelding var aftur á móti í 4. sæti deildarinnar, en aðeins tveimur stigum á eftir FH. Þetta var því lykil leikur í toppbaráttu deildarinnar.

Fyrri hálfleikurinn byrjaði mjög jafn þar sem liðin skiptust á að komast yfir og jafna leikinn. Það var ekki fyrr en á 14. mínútu leiksins sem annað liðið komst í tveggja marka forystu en það var Jakob Martin Ásgeirsson sem skoraði úr hraðaupphlaupi og kom því FH í stöðuna 8-6. FH myndi mest komast í þriggja marka forystu í stöðunni 10-7.

Garðar Ingi Sindrason fer í gegn.Vísir/Hulda Margrét

Síðustu 10 mínútur hálfleiksins voru hins vegar töluvert betri fyrir Aftureldingu sem koma af fullum krafti til baka. Þeir söxuðu hægt og rólega á forskotið þar til þeim tókst að jafna leikinn í 14-14 þegar Ihor Kopyshynskyi skoraði umdeilt mark, en heimamenn voru handvissir um að þar hefði átt að dæma línu. Ihor var svo aftur á ferðinni með loka mark hálfleiksins þegar hann kom Aftureldingu yfir. Staðan í hálfleik því 15-16 Aftureldingu í vil.

Árni Bragi Eyjólfsson undirbýr skot að marki.Vísir/Hulda Margrét

Seinni hálfleikurinn fór af stað með svipuðum hætti og sá fyrri þar sem liðin voru jöfn og skiptust á að komast yfir. Það var svo aftur FH sem tók svo yfirhöndina þegar um 10 mínútur voru liðnar af hálfleiknum Jón Bjarni Ólafsson kom Hafnfirðingum í tveggja marka forystu og tveim mínútum síðar hafði FH náð upp þriggja marka forystu.

Jón Bjarni Ólafsson skorðai sjö mörk í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Þar eftir hélst nokkuð jafnvægi í leiknum þar sem FH hélt þessari forystu en Afturelding skoraði fjögur mörk gegn aðeins einu marki Hafnfirðinga á fjögurra mínútna kafla og því staðan aftur jöfn þegar tíu mínútur eru eftir af leiknum. Þá vöknuðu FH almennilega við og tóku yfir leikinn loka mínúturnar. Þeir byggðu aftur upp fínt forskot og leikar enduðu 34-29.

Atvik leiksins

Á 56. mínútu er FH þremur mörkum yfir og á leiðinni í sókn. Ásbjörn Friðriksson á þá færi sem Einar Baldvin Baldvinsson ver, Ásbjörn fær boltann aftur og skýtur en aftur ver Einar. Þá geysast Aftureldingar menn í hraðaupphlaup en skotið frá Harra Halldórssyni er varið af Daníel markmanni FH. Svakalegar mínútur í lok leiks sem reyndust drjúgar fyrir FH.

Stjörnur og skúrkar

Ásbjörn Friðriksson var markahæstur hjá FH með 9 mörk en hann var einnig mjög mikilvægur í öllu uppleggi sóknarlega hjá FH. Jón Bjarni Ólafsson línuvörður FH var einnig í banastuði en hann skoraði 7 mörk.

Ásbjörn stendur alltaf fyrir sínu.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Blær Hinriksson var markahæstur hjá Aftureldingu með 6 mörk en hann átti fínan leik. Birgir Steinn Jónsson var ekki langt frá með 5 mörk en hann er hins vegar sá sem ég vel í skúrkinn. Þessi 5 mörk komu úr 12 skotum, full mikið af færum sem fóru úrskeiðis.

Blær Hinriksson í leik kvöldsins.Vísir/Hulda Margrét

Dómararnir

Fín frammistaða hjá teyminu, nokkrir smáhlutir sem voru aðeins skrýtnir en ekkert stórt sem ég sá.

Úr leik kvöldsins.Vísir/Hulda Margrét

Stemmning og umgjörð

Það var virkilega vel mætt á Kaplakrika í kvöld, hjá báðum stuðningsliðum. Trommuslátturinn var ákafur báðu megin í höllinni og stuðningsmenn duglegir að láta í sér heyra þegar á þurfti. Stemmningin alveg til fyrirmyndar.

Mosfellingar mættu í Krikann líkt og stuðningsfólk FH.Vísir/Hulda Margrét

„Vitað mál að þetta gæti orðið jafnt fram að síðustu sekúndu“

Sigursteinn er ávallt líflegur.Vísir/Hulda Margrét

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH var ánægður með leik sinni manna í kvöld eftir sigurinn á Aftureldingu.

„Ég er ofboðslega glaður, þetta var frábær leikur, tvö góð lið. Mér fannst Afturelding frábærir líka. Það var seigla í okkur, við héldum áfram að spila vörn og gáfum ekki eftir þar. Þá lifum við með einu og einu klikki. Góður sigur.“

Leikurinn var mjög jafn allan leikinn en FH náði að búa sér til forystu í lok leiksins.

„Þetta er ekkert í fyrsta skiptið og leikurinn er 60 mínútur og við erum að mæta frábæru liði. Þar af leiðandi var það vitað mál að þetta gæti orðið jafnt fram að síðustu sekúndu.“ Sagði Sigursteinn.

FH endurheimti toppsætið með þessum sigri en Valur fór tímabundið í 1. sætið í gær eftir sigur á Gróttu.

„Við komum grimmir eftir sigrinum og við gerum okkur grein fyrir því að deildin er mjög jöfn. Við þurfum bara að hafa hugan á okkar eigin prógrammi og næst er það bara KA, þá er bara fullur fókus á það,“ sagði Sigursteinn.


Tengdar fréttir

„Við erum of mistækir“

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar var svekktur með tap sinna manna í Aftureldingu þegar liðið sótti Íslandsmeistara FH heim í 20. umferð Olís-deildar karla í handbolta. Hann segir sína menn einfaldlega hafa verið of mistæka.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira