Upp­gjörið: Grinda­vík - Kefla­vík 101-91 | Gula dreymir um heima­vallarrétt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ólafur Ólafsson tryggði sigurinn endanlega með þristi í lokin.
Ólafur Ólafsson tryggði sigurinn endanlega með þristi í lokin. Vísir/Hulda Margrét

Grindavík lagði Keflavík með tíu stiga mun og getur nú blandað sér í baráttuna um heimavallarrétt í úrslitakeppni Bónus-deildar karla í körfubolta. Keflavík er hins vegar enn að berjast um sæti í úrslitakeppninni.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn betur og áttu í litlum vandræðum með að setja stig á töfluna gegn daufri vörn Keflavíkur. Lagio Grantsaan byrjaði mjög vel hjá Grindvíkingum og var kominn með 8 stig snemma leiks en Daniel Mortensen lenti hins vegar í villuvandræðum og spilaði lítið í fyrri hálfleiknum.

Staðan var 28-22 eftir fyrsta leikhlutann en Keflavík byrjaði annan leikhluta betur og minnkaði muninn strax. Nigel Pruitt kom inn af miklum krafti og náðu Keflvíkingar forystunni í stöðunni 41-39. Þá bitu Grindvíkingar frá sér á ný. DeAndre Kane og Jeremy Pargo settu stig á töfluna og eftir að Kane skoraði fjögur snögg stig úr tveimur hraðaupphlaupum og kom Grindavík í 58-48 þá tóku Keflvíkingar leikhlé. Staðan í hálfleik 59-50 heimamönnum í vil.

Í þriðja leikhluta byrjuðu heimamenn á að koma muninum upp í sextán stig og virtust ætla að stinga af með leikinn. Keflvíkingar svöruðu hins vegar af krafti. Þeir náðu 9-0 kafla og söxuðu á forskotið en vantaði að taka skrefið að jafna og komast yfir.

Svipað var uppi á teningunum í fjórða leikhluta. Keflvíkingar gerðu sig oft líklega en Grindavík átti alltaf einhverja ása uppi í erminni. Hvort sem það var tromp frá DeAndre Kane, þristur frá Kristófer Breka eða tvistur frá Jeremy Pargo. 

Þriggja stiga karfa frá fyrirliðanum Ólafi Ólafssyni með hálfa mínútu eftir á klukkunni kláraði leikinn svo endanlega. Grindavík fagnaði 101-91 sigri og skilur þar með Keflvíkinga eftir í brasi í baráttunni um sæti í úrslitakeppni. Sjálfir eru Grindvíkingar í 6. Sæti, ekki öruggir um sæti í 8-liða úrslitum en stigu í kvöld stórt skref í þá átt.

Atvik leiksins

Í stöðunni 84-80 setti DeAndre Kane niður tvö þriggja stiga skot með 40 sekúndna millibili. Jók hann þá muninn í tíu stig nánast upp á eigin spýtur og gaf Grindvíkingum andrými á mikilvægum tímapunkti í leiknum.

Stjörnur og skúrkar

Áðurnefndur Kane var algjörlega frábær hjá Grindavík í kvöld. Hann skoraði 27 stig, tók 10 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal fjórum boltum þar að auki. Kane setti stór skot þegar á þurfti að halda og ásamt Jeremy Pargo og Lagio Grantsaan leiddi hann sóknarleik Grindavíkur ásamt því að spila vel í vörninni.

Kristófer Breki Gylfason setti þrjú stór þriggja stiga skot niður í seinni hálfleik og spilaði fínan varnarleik þar að auki.

Ty-Shon Alexander átti góða spretti hjá Keflavík en var týndur á köflum. Nigel Pruitt og Remu Raitanen komu með mikla orku inn af bekknum og klikkaði sá finnski ekki á skoti í leiknum. Keflavík þarf hins vegar meira frá Hilmari Péturssyni og Igor Maric, sérstaklega þegar aðrir lykilmenn eru fjarverandi vegna meiðsla.

Dómararnir

Grindvíkingar voru ósáttir með ýmsa dóma, sérstaklega í fyrri hálfleik.Þ eir fengu fjórtán villur í fyrri hálfleiknum en Keflvíkingar sex. Einhverjar af villum heimamanna voru ódýrar en sumar klaufalegar.

Heilt yfir dæmdu dómararnir ágætlega, í tilfinningaríkum leik koma alltaf upp vafaatriði sem menn verða seint eða aldrei sammála um.

Stemmning og umgjörð

Það var vel mætt í Smárann í dag, Grindvíkingar fjölmennari og háværari en Keflvíkingar voru sömuleiðis nokkuð margir og áttu sína spretti í stúkunni þó Stinningskaldi hafi haldið stemmningunni gangandi.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira