Skoðun

Eyði­leggjandi um­ræða

Guðný Pálsdóttir og Súsanna Margrét Gestsdóttir skrifa

Hvernig á að tala við kennaranema um þessar mundir? Það er áleitin spurning í ljósi atburða síðustu mánaða. Undirritaðar eru á þeirri skoðun að fátt sé skemmtilegra eða verðugra en að vera kennari. En eins og sakir standa getur verið snúið að koma í veg fyrir að kennaranemar missi móðinn. Úr öllum áttum fá þau skýr skilaboð um að kennsla sé ómerkilegt starf sem lítið sé varið í að leggja fyrir sig og nú hefur meira að segja orðið ljóst að sums staðar eru ekki gerðar meiri kröfur til þeirra sem kenna börnum en að þau hafi hreint sakavottorð. Hvernig er fimm ára kennaramenntun metin? Það er kaldhæðnislegt að kennaraskortur á Íslandi er öllum kunnur og hefur verið gripið til margvíslegra ráðstafana á síðustu árum til að laða fólk að kennslu. En sú harða kjaradeila sem geisað hefur síðustu mánuði er eins og loftsteinn ofan í þá uppbyggingu. Áttar fólk sig á þeirri eyðileggingu sem nú dynur á? Þegar kennari hefur menntað sig og stendur frammi fyrir bekk getur verið veruleg áskorun að bera höfuðið hátt frammi fyrir nemendum sem undrast það jafnvel að einhver hafi kosið að gera kennslu að ævistarfi, í ljósi þess hvernig um starfið er rætt.

Er ekki ljóst að þegar öllu er á botninn hvolft er kjarni málsins sá hvers kyns menntun börnum þessa lands er búin, hvort þau njóta kennslu fagfólks eða fólks af götunni? Það viðhorf til kennara sem birtist í þessari langvarandi kjaradeilu og umræðum sem henni fylgja er skemmdarverk og alls óvíst hverjar afleiðingarnar verða til lengri tíma. Við skorum á stjórnvöld þessa lands að meta kennarastarfið að verðleikum og höggva á hnútinn áður en meiri skaði verður skeður.

Guðný Pálsdóttir er framhaldsskólakennari.

Súsanna Margrét Gestsdóttir er lektor á menntavísindasviði HÍ.




Skoðun

Sjá meira


×