Innlent

Fundu tvö dæmi um Kjartann en samt virðist enginn hafa borið nafnið

Jón Þór Stefánsson skrifar
Fólk má ekki skíra börnin sín Kjartann, en Kjartan er í lagi.
Fólk má ekki skíra börnin sín Kjartann, en Kjartan er í lagi. Getty

Mannanafnanefnd samþykkti síðastliðinn fimmtudag fimm ný eiginnöfn og féllst á nýjar föðurkenningar. Hins vegar hafnaði nefndin einu nafni, Kjartann.

Eiginnöfnin sem voru samþykkt eru kvenmannsnöfnin Ingirún, Yrkja, Hannah og Ástý og karlmannsnafnið Stormar.

Þá var fallist á föðurkenningarnar Evgeníusdóttir og Evgeníusson, sem og móðurkenninguna Agnesardóttir.

Líkt og áður segir hafnaði mannanafnanefnd beiðni um karlmannsnafnið Kjartann.

Í úrskurði nefndarinnar er bent á að Kjartann sé ritháttarafbrigði rótgróna nafnsins Kjartan „eða eftir atvikum afbökun á því“. Því segir að rétt væri að samþykkja nafnið ef hefð væri fyrir því. Í úrskurðinum er vísað til vinnureglna þar sem að segir:


Nafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

  1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
  2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
  3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
  4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr);
  5. Það er nú ekki borið af neinum Íslendingi en kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr) og hefð þess hefur ekki rofnað. Hefð nafns telst rofin ef það hefur ekki verið borið af Íslendingi undanfarin 70 ár.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands ber enginn nafnið Kjartann.

Þó kemur nafnið fyrir í tveimur manntölum, annars vegar 1910 og hins vegar 1920. Þó segir að skilyrði reglnanna „um að hefð nafns, sem kemur fyrir í manntölum, hafi ekki rofnað, er ekki uppfyllt hér“.

Þá virðist enginn hafa borið nafnið Kjartann í þjóðskrá, en þeir menn sem nefndir eru Kjartann í manntölum voru skráðir sem Kjartan í þjóðskrá.

„Ekki getur talist hefð fyrir rithættinum og beiðninni hafnað,“ segir í úrskurði nefndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×