Skoðun

Gulur, rauður, blár og B+

Jón Pétur Zimsen skrifar

Aðalnámskrá grunnskóla (ANG) er leiðarvísir skólanna að námi barna. Þessi leiðarvísir er ónýtur. Kennarar reyna að vinna eftir leiðarvísi sem ómögulegt er að vinna eftir. Það er mjög íþyngjandi að mæta í vinnuna dag hvern og kljást við óskiljanlega orðasúpu.

Er ég að vinna með grunnþættina eða lykilhæfnina. Hvar finn ég matsviðmiðin fyrir 3. bekk. Veistu það ekki? Það er gert ráð fyrir því að þú búið þau til. Á ég að gefa liti, tölur, bókstafi eða umsögn í námsmati? Hvað með 10. bekk og matsviðmiðin þar ? Það er skylda að nota þau en á að fylla inn í þau jafnt og þétt eða gefa bara í lokin?

Foreldrar og nemendur vilja sjá þróunina í matsviðmiðunum ekki bara hæfniviðmiðunum. Er búið að aðlaga hæfniviðmið fyrir 9. bekk? Hvað þýðir ,,á góðri leið“? Á ég að gefa A ef nemandinn getur 95% af prófinu en ekki flóknu spurninguna sem reynir á A-hæfni? Er öruggt að ef nemandi sem útskrifast með B fari inn á þriggja ára braut í framhaldsskóla? En ef hann er ekki með B í ensku? Er fjólublár það sama og A? Er B=3? En B+?

Þeir sem eru búnir að þvæla sig í gegnum textabunkann hér að ofan segi ég til hamingju. Fyrir þá sem eru mjög vel að sér í ANG skilja það sem þarna er skrifað, aðrir ekki.

Það er engri stétt boðlegt að ástandið sé svona. Getur verið að ónýtur leiðarvísir sé hluti af hruni á námsárangri?

Drepum fæti niður í rannsókn sem gerð var á vegum MMR 2019 og er í fullu gildi í dag.

,,Hjá kennurum, nemendum, skólastjórnendum og foreldrum hefur ríkt mikil óvissa og óöryggi árum saman… Helstu þættir námskrár eru illskiljanlegir, of háfleygir og of undirorpnir túlkun hvers og eins… Að mikið ósamræmi er í því hvernig aðalatriði hennar eru notuð í grunnskólum og ljóst að helstu markmið núverandi aðalnámskrár hafa EKKI náðst.“

Það er því sérkennileg forgangsröð að byrja á Matsferli þar sem hann á að meta hvernig nemendum hefur gengið að tileinka sér ofangreinda aðalnámskrá sem skólakerfið hefur sett í ruslflokk. Að reyna að púkka upp á hið ónýta plagg væri eins og ætla sér að endurgera brunninn bíl sem farið hefur 10 veltur í stað þess að búa til nýjan.

Nýja aðalnámskrá grunnskóla strax allra vegna.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Skoðun

Sam­úð

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar

Sjá meira


×