Innlent

Lang­flestir hafa minnsta trú á Ingu

Árni Sæberg skrifar
Inga Sæland virðist síður njóta trausts en aðrir ráðherrar.
Inga Sæland virðist síður njóta trausts en aðrir ráðherrar. Vísir/Vilhelm

Þriðjungur þjóðarinnar hefur minnstar væntingar til Ingu Sæland af ráðherrunum ellefu í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur. Forsætisráðherra ber höfuð og herðar yfir aðra ráðherra hvað væntingar varðar.

Þetta eru niðurstöður könnunar Maskínu, sem framkvæmd var dagana 12. til 17. febrúar. Sams konar könnun var framkvæmd við upphaf síðasta kjörtímabils. Þá hafði þjóðin mestar væntingar til Willums Þórs Þórssonar en minnstar til Jóns Gunnarssonar.

Mestar væntingar til Samfylkingarinnar

1.511 manns úr þjóðhópi, sem dreginn var með tilviljun úr Þjóðskrá, svöruðu tveimur spurningum, annars vegar til hvaða ráðherra svarandi hefði mestar væntingar til og hins vegar til hvaða ráðherra svarandi hefði minnstar væntingar til.

Langflestir sögðust hafa mestar væntingar til Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra, 36,7 prósent. Næstmestar væntingar hefur þjóðin til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra, 11,7 prósent, og þriðju mestu til Ölmu D. Möller heilbrigðisráðherra, 11,2 prósent.

Maskína

Samantekið hafa 54,8 prósent mestar væntingar til ráðherra Samfylkingarinnar, 30,2 prósent til ráðherra Viðreisnar og 15,1 prósent til ráðherra Samfylkingarinnar.

Skiptar skoðanir á Ingu

Athygli vekur að langflestir segjast minnstar væntingar hafa til Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra, 33,1 prósent, og næst á eftir henni eru hinir tveir ráðherrar Flokks fólksins. 12,5 prósent segjast hafa minnstar væntingar til Ásthildar Lóu Þórsdóttur, mennta- og barnamálaráðherra, og 12,3 prósent til Eyjólfs Ármannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Maskína

Þrátt fyrir að Inga sé efst á blaði yfir þá ráðherra sem fólk hefur minnstar væntingar til er hún í fjórða sæti yfir þá ráðherra sem fólk hefur mestar væntingar til. Slétt tíu prósent segjast mestar væntingar hafa til Ingu.

Eins og gefur að skilja miðað við efstu þrjú sætin á listanum hér að ofan segjast langsamlega flestir hafa minnstar væntingar til ráðherra Flokks fólksins eða 58 prósent. 29,1 prósent segjast minnstar væntingar hafa til ráðherra Samfylkingar og aðeins 12,9 prósent segjast minnstar væntingar hafa til ráðherra Viðreisnar.

Maskína



Fleiri fréttir

Sjá meira


×