Enski boltinn

Ruglingur í gangi með rauða spjaldið hjá Slot

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Slot svekkir sig á hliðarlínunni í leiknum á móti Everton. Liverpool liðið hefur ekki verið sannfærandi að undanförnu.
Arne Slot svekkir sig á hliðarlínunni í leiknum á móti Everton. Liverpool liðið hefur ekki verið sannfærandi að undanförnu. Getty/ Carl Recine

Arne Slot fékk rauða spjaldið eftir leik Everton og Liverpool á miðvikudagskvöldið. Á því er enginn vafi það er hins vegar ekki ljóst hver refsingin verður.

Rauða spjaldið fór á loft á miðjum vellinum eftir að Slot hafði tekið í höndina á Michael Oliver dómara eftir leik. Sá hollenska hafði greinilega sagt eitthvað við dómara leiksins í öllu svekkelsinu.

Liverpool hafði skömmu áður fengið á sig jöfnunarmark á áttundu mínútu í uppbótatíma. Liðið er samt sem áður með sjö stiga forskot á toppi deildarinnar.

En af hverju er ruglingur með þetta rauða spjald? Sökin liggur hjá starfsmönnum ensku úrvalsdeildarinnar sem virðist hafa hlaupið á sig.

Enska úrvalsdeildin ýtti nefnilega undir slíkan ruglinginn með því að gefa út yfirlýsingu um að hollenski knattspyrnustjórinn væri á leið í tveggja leikja bann en tók hana svo úr birtingu.

Samkvæmt yfirlýsingunni notaði Slot móðgandi og særandi orð við Michael Oliver dómara. Oliver gaf ekki aðeins Slot rauða spjaldið heldur einnig aðstoðarmanni hans Sipke Hulshoff.

„Já þetta eru mistök hjá ensku úrvalsdeildinni. Enska knattspyrnusambandið hefur enn rétt til þess að skoða og meta skýrslu dómarans og ákveða síðan framhaldið eftir það. Þeir fá þrjá virka daga til að opna mál gegn Slot. Eins og staðan er núna þá er hann ekki banni á móti Wolves um helgina,“ skrifaði James Pearce, fréttamaður á The Athletic.

Slot hefur ekki tjáð sig um rauða spjaldið því samkvæmt reglum ensku úrvalsdeildarinnar þá mega stjórar ekki fara í viðtal eftir leiki þar sem þeir fá að líta rauða spjaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×