Fótbolti

Rod Stewart lék á als oddi í beinni: „Ég er búinn að fá mér nokkra“

Aron Guðmundsson skrifar
Rod Stewart ræddi við Peter Schmeichel fyrir leik Celtic og Bayern Munchen í Meistaradeild Evrópu í gær. Rod var í stuði, vægt til orða tekið.
Rod Stewart ræddi við Peter Schmeichel fyrir leik Celtic og Bayern Munchen í Meistaradeild Evrópu í gær. Rod var í stuði, vægt til orða tekið. Vísir/Getty

Breski söngvarinn Rod Stewart sló heldur betur í gegn í beinum útsendingum TNT Sport og CBS frá leik Celtic og Bayern Munchen í Meistaradeild Evrópu í gær. Þar viðurkenndi Stewart að hann væri búinn að fá sér nokkra.

Rod Stewart, nú áttatíu ára gamall, hefur átt ófáa smellina í gegnum tíðina. Hann er mikill stuðningsmaður skoska fótboltaliðsins Celtic og var mættur til þess að styðja sína menn á Celtic Park í fyrri leik liðsins gegn þýska stórveldinu Bayern Munchen í umspili fyrir sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar. 

Nokkuð óvænt var hann tekinn í viðtal bæði hjá TNT Sports og CBS á hliðarlínunni á Celtic Park. Hjá CBS ræddi hann við markvarðargoðsögnina Peter Schmeichel sem og við Thierry Henry, Kate Scott, Jamie Carragher og Micah Richards í stúdíói en þáttur þeirra hefur slegið í gegn á tímabilinu. 

Rod, lék á als oddi. Þegar að vallarþulurinn byrjaði að gjamma í kallkerfi Celtic Park sagði hann honum að þegja.  Þá viðurkenndi Rod í upphafi viðtalsins við Schmeichel að hann væri búinn að fá sér nokkra. Fjórmenningar CBS voru á meðan í hláturskasti hinum megin á línunni og áður en langt var um liðið sagði Stewart: „Ég held þið ættuð að taka mig úr loftinu. Eg er bara að verða mér til skammar.“

Úrslit leiksins fóru ekki eins og Rod Stewart hefði viljað. Bayern bar 2-1 sigur úr býtum og er því með eins marks forystu í einvíginu fyrir seinni leik þess eftir tæpa viku. Samanlögð úrslit úr leikjunum tveimur skera úr um hvort liðið fer áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×