Lífið

Ör­yrki um þrí­tugt vegna verkja en lyfja­laus í dag

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Vilhjálmur Andri, betur þekktur sem Andri Iceland, segir öndun og kulda hafa gjörbreytt lífi hans til hins betra.
Vilhjálmur Andri, betur þekktur sem Andri Iceland, segir öndun og kulda hafa gjörbreytt lífi hans til hins betra.

„Það var ekki fyrr en ég fór að vinna í þessu sjálfur að ég fann hvað skipti máli,“ segir Vilhjálmur Andri Einarsson, betur þekktur sem Andri Iceland. Andri, sem var orðinn öryrki rétt yfir þrítugt, ákvað að reyna að taka heilsu sína í eigin hendur eftir áratuga löng heilsufarsvandamál.

Andri var nýverið gestur Heilsuhlaðvarps Lukku og Jóhönnu Vilhjálms þar sem hann ræddi áhrif öndunar og kulda á líkamann. Með rannsóknum á öndunartækni og kuldaþjálfun segist Andri hafa fundið leið til að endurheimta orku og heilsu, lausn sem hann hefur nú kennt þúsundum manna.

„Hættu að væla, komdu að kæla,“ segir hann og leggur áherslu á að kæling og rétt öndun geti umbreytt líðan og orku fólks.

Lenti í slysi þrettán ára

Áður en Andri fann lausnina í öndun og kulda hafði hann glímt við alvarlega heilsufarsvandamál í áratugi. Eftir að hafa dottið niður á milli hæða og lent illa á bakinu þegar hann var þrettán ára byrjaði hann að þjást af krónískum verkjum. 

Þeir dreifðust frá tá upp í höfuð og ollu einnig alvarlegum vandamálum í þvagblöðrunni.

„Ég hélt að ég væri bara með eitthvað eðlilegt vandamál en þvagblaðran mín hafði stækkað upp í einn og hálfan lítra,“ segir hann.

Eftir áratuga baráttu við verki, kvíða og þunglyndi, þar sem áfengi var oft notað sem tímabundin lausn, var Andri greindur með ADHD og fleiri kvilla. 

Engin lausn fannst sem virkaði til lengri tíma. Hann var loks greindur með skemmd í mænutagli og settur á sterk verkjalyf og önnur meðferðarúrræði og hann úrskurðaður sem sextíu og sjö prósent öryrki.

„Ég var í þessu ástandi í fimmtán ár, á lyfjum og með ráðleggingar um að setja í mig lyfjadælubúnað til að róa taugakerfið,“ segir Andri.

Það var ekki fyrr en hann fann öndunartækni og kuldaþjálfun sem Andri segist hafa fundið raunverulegan bata. Með því að læra að stjórna öndun sinni og nota kulda til að endurstilla kerfið, tókst honum að hætta öllum lyfjum og snúa heilsunni við.

„Ég er á engum lyfjum í dag og líður betur en nokkru sinni fyrr. Það var mín ákvörðun að velja annað erfitt. 

Það er erfitt að vera veill og á lyfjum en það er líka erfitt að velja lífsstíl sem krefst aga og breytinga. 

Ég valdi mitt erfitt.“

Segir öndun eitt öflugasta en vanmetnasta verkfærið

Andri telur öndunina eitt af öflugustu verkfærum sem við eigum til að bæta líkamlega og andlega heilsu en flest okkar nýti hana ekki rétt. Áhrif hennar séu vanmetin og fólk trúi því ekki fyrr en á reynir hve öflugt verkfæri hún sé.

„Ef við skoðum frumstæðari samfélög, þar sem fólk andar rétt og lifir náttúrlegu lífi, þá sjáum við ekki sama fjölda sjúkdóma og í vestrænu samfélagi,“ segir Andri og bendir á að öndunin okkar hafi breyst með þróun samfélagsins og breyttum venjum okkar.

„Í dag anda 65% fullorðinna meira með munninum en nefinu og 50% barna anda meira í gegnum munninn en nefið,“ segir hann og bendir á að þetta hafi ekki alltaf verið svona.

Tyggjum minna og kjálkinn hafi minnkað

Hann bendir á að allt að 500 ára gamlar hauskúpur sem hafi verið rannsakaðar sýni að áður fyrr höfðu menn stærri kjálka, stærra nefop og beinar tennur. 

„Vísindamenn tengja þetta við breyttar fæðuvenjur: Við tyggjum minna, börn eru skemur á brjósti og við notum ekki kjálkavöðvana eins mikið. Þetta hefur valdið því að kjálkinn hefur minnkað, minna pláss er fyrir tennurnar og tunguna og öndunarvegurinn þrengist.

Þegar minna pláss er í munni og koki er líklegra að fólk andi í gegnum munninn fremur en nefið, sem er stórt vandamál“ segir Andri.

Segir neföndun lífsnauðsynlega fyrir góða heilsu

Andri segir að öndun í gegnum nefið sé ekki bara eðlilegari, heldur lífsnauðsynleg fyrir góða heilsu.

„Þegar við öndum í gegnum nefið tökum við upp súrefni á skilvirkari hátt, við setjum jafnvægi á þrýsting í líkamanum og framleiðum köfnunarefnisoxíð (nitric oxide), sem eykur blóðflæði og hjálpar til við súrefnisupptöku í frumum okkar,“ útskýrir Andri og bætir við að auk þess þjálfi neföndun þindarvöðvann, sem sé lykillinn að djúpri og áhrifaríkri öndun.

,,Nefið er einnig fyrsta vörnin okkar gegn sjúkdómum en með því að anda í gegnum það hreinsum við loftið, hitum það og styrkjum ónæmiskerfið.

Ættum að sættast við kuldann

Auk réttrar öndunar er kuldinn ein af þeim aðferðum sem Andri telur geta umbreytt heilsu fólks. Hann segir að við forðumst kulda en kannski ættum við að sættast við hann.

„Kuldi virkar ekki bara vel á líkamann, heldur einnig á hugann. Við erum of dekruð og skýlum okkur alltaf fyrir köldum aðstæðum. En þegar við venjumst kuldanum virkjast ferlar í líkamanum sem auka blóðflæði, draga úr streitu og styrkja ónæmiskerfið,“ segir Andri.

Hann ráðleggur öllum að byrja einfalt – til dæmis með því að enda sturtuna á 30 sekúndna kaldri bunu. „Eftir nokkrar vikur finnurðu mun á einbeitingu, svefni og almennri vellíðan.“

Samspil öndunar og hugarróar er líka lykilatriði að mati Andra. „Við getum andað okkur inn í kvíða, en við getum líka andað okkur inn í jafnvægi,“ segir hann og bætir við að langflestir dragi andann of hratt, sem getur aukið streitu.

„Ef þú andar meira en sex sinnum á mínútu gætirðu haft gott af því að hægja á og stjórna önduninni meðvitað,“ segir Andri.

Síminn geti minnt mann á að anda hægar

Andri bendir á að einfalt ráð til að minnka streitu sé að setja áminningu í símann til að minna reglulega á að beina athyglinni að önduninni og hægja á henni. Hann leggur áherslu á að allir geti æft og betrumbætt öndunina.

„Þetta er ekki flókið, þetta snýst um æfingu og endurtekningu. Ef þú vilt breyta önduninni, settu áminningu í símann, minntu þig á að hægja á önduninni og æfðu meðvitaða öndun. Þá mun heilsan fylgja eftir,“ segir Andir og minnir á að hann sé með námskeið þar sem fólk getir lært meira um þessar aðferðir, þjálfað þær og endurheimt orku sína og bætt líðan.

Ekkert gerist ef þú gerir ekki neitt

Andri leggur mikla áherslu á að taka ábyrgð á eigin heilsu og vellíðan. Hann lýsir því hvernig hann var lengi að bíða eftir að einhver annar myndi lækna hann eða leysa hans vandamál, en áttaði sig svo á því að enginn gæti gert það fyrir hann. Hann þyrfti sjálfur að taka stjórnina.

„Það var ekki fyrr en ég fór að vinna í þessu sjálfur að ég fann hvað skipti máli,“ segir hann. Þrátt fyrir alvarlega mænutaugaskemmd og viðvarandi verkjavandamál tókst Andra að finna leið til að bæta líðan sína. Hann segir að lykillinn hafi verið að hætta að mótmæla aðstæðum sínum, sætta sig við þær og finna leiðir til að vinna í kringum þær – með réttri öndun, kuldameðferð, réttu hugarfari og stöðugri sjálfsvinnu.

„Lausnirnar eru oft nær en við höldum,“ segir Andir og bætir við að það felist mikið frelsi í því að axla ábyrgð á eigin líðan. „Ekki gerist neitt ef þú gerir ekki neitt. En ef þú gerir eitthvað í því, þá gerist fullt.“

Hér má hlusta á allt hlaðvarpið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.