Bellingham tryggði Real sigur með síðustu snertingu leiksins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jude Bellingham fagnar sigurmarki sínu fyrir Real Madrid á móti Manchester City í kvöld.
Jude Bellingham fagnar sigurmarki sínu fyrir Real Madrid á móti Manchester City í kvöld. Getty/Robbie Jay Barratt

Real Madrid er í góðum málum eftir dramatískan 3-2 útisigur á Manchester City í kvöld í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Viðureignir liðanna síðustu ár hafa verið frábær skemmtun og þessu leikur var engin undantekning á því.

Real Madrid tryggði sér sigurinn með tveimur mörkum á lokamínútunum. Varamaðurinn Brahim Diaz jafnaði metin á 86. mínútu og Jude Bellingham skoraði sigurmarkið í uppbótatíma.

Vinicius Junior bjó til bæði mörkin og sannaði enn á ný mikilvægi sitt fyrir Real liðið.

Það var nóg af færum og bæði lið hefðu því getað skora mun fleiri mörk. Það var þó meira um dauðafæri hjá gestunum sem voru heilt yfir betra liðið. Þótt að sigurinn hafi verið dramatískur þá verður að segja að hann hafi verið sanngjarn.

Real Madrid var líka miklu hættulegra liðið framan af leik og var búið að fá nokkur góð færi í fyrri hálfleiknum þegar Manchester City komst yfir gegn gangi leiksins.

Jack Grealish og Josko Gvardiol gerðu mjög vel í að búa til markið fyrir Erling Braut Haaland á 19. mínútu. Norðmaðurinn fékk boltann við markteiginn eftir brjóstkassasendingu frá Gvardiol og skoraði örugglega.

Það var samt mjög tæpt með rangstöðuna og það tók myndbandsdómarana að fullvissa sig um að hann hafi verið réttstæður.

Real Madrid hélt áfram að ógna en Ederson og varnarmenn City voru jafnan vel að verði.

Heppnin var ekki með Real mönnum í leiknum eða þar til að þeir jöfnuðu metin á 60. mínútu.

Kylian Mbappé átti vissulega flott hlaup inn í teig eftir fyrirgjöf frá Daniel Ceballos en skotið hans misheppnaðist alveg. Boltinn fór af sköflungnum en þetta misheppnaða skot breytist skyndilega í óverjandi marktilraun því boltinn sveif framhjá Ederson og í fjærhornið.

Mbappé fagnaði auðvitað vel en liðsfélagarnir gátu ekki annað en brosað út í annað þegar þeir fögnuðu þessu furðulega marki.

Phil Foden fiskaði vítaspyrnu á 80. mínútu og Erling Haaland skoraði af öryggi úr henni.

Það stefndi í heimasigur en sex mínútum seinna var Real búið að jafna. Brahim Diaz fylgdi þá eftir skoti Vinicius Junior sem Ederson varði.

Vinicius Junior komst síðan einn í gegn í uppbótatímanum og kom boltanum framhjá Ederson. Boltinn var að fara framhjá markinu þegar Bellingham kom aðvífandi og kom honum yfir línuna.

Bellingham skoraði þarna með síðustu snertingu leiksins og leikurinn endaði því á grátlegan hátt fyrir heimamenn sem héldu tíu mínútum fyrr að þeir væru að fara suður á Spán með eitt mark í forskot. Nú þurfa þeir að vinna upp eins marks forskot Real og það á sjálfum Bernabeu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira