Erlent

Rann­saka and­lát breskra hjóna í Frakk­landi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Leikarinn Callum Kerr í hlutverki sínu í Virgin River og stjúpfaðir hans, Andrew, og móðir hans, Dawn.
Leikarinn Callum Kerr í hlutverki sínu í Virgin River og stjúpfaðir hans, Andrew, og móðir hans, Dawn. Samsett

Skoski sjónvarpsleikarinn Callum Kerr hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna andláts móður  sinnar og eiginmanns hennar í Aveyron í suðvesturhluta Frakklands þar sem þau bjuggu. Franska lögreglan rannsakar andlát þeirra en grunur leikur á að þau hafi verið myrt.

Dawn Searle, móðir Kerr, og eiginmaður hennar, Andrew Searle, fundust látin á fimmtudag á heimili sínu í Frakklandi. Þau fundust um hádegisbil á fimmtudag. Fram kemur í frétt Guardian um málið að þau hafi búið í Frakklandi í um tíu ár. Hann vann áður við að rannsaka fjársvikamál og hún sem verkefnastjóri.

Í umfjöllun Guardian segir að móðir hans hafi fundist fyrir utan húsið, í garðinum, með alvarleg höfuðmeiðsli og skartgripi í kringum sig. Nágranni hafi fundið hana og talið hana nakta og slasaða og hringt á viðbragðsaðila. Þegar lögregla og aðrir viðbragðsaðilar komu á vettvang hafi þau svo fundið eiginmann hennar látinn. Í frétt Guardian segir að lögreglan sé engu nær um hvað hafi átt sér stað á heimili þeirra. Rannsókn sé enn í gangi.

„Andlát þeirra beggja var ofbeldisfullt en ég get ekki staðfest að um manndráp sé að ræða. Allar tilgátur eru enn til skoðunar,“ sagði Nicolas Rigot-Muller saksóknari í Frakklandi við fjölmiðla á föstudag og að þau yrðu bæði krufin á morgun, mánudag.

Yfirlýsing frá leikaranum og fjölskyldunni.Instagram

Í tilkynningu Kerr á Instagram kom fram að fjölskyldan syrgði fráfall þeirra og að þau væru ekki til viðtals en að þau myndu veita frekari upplýsingar síðar.

Kerr lék um árabil í bresku sápuóperunni Hollyoaks en lék einnig lítið hlutverk í síðustu seríu Netflix-þáttanna Virgin River sem eru vinsælir á Íslandi. Þá hefur hann einnig gefið út tónlist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×