Íslenski boltinn

Cousins búin að semja við Þrótt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Katie Cousins í leik með Þrótti.
Katie Cousins í leik með Þrótti. VÍSIR/VILHELM

Eitt verst geymda leyndarmál kvennaboltans var afhjúpað í dag er Þróttur tilkynnti að Katie Cousins væri búin að semja við félagið.

Þessi magnaða knattspyrnukona kemur til félagsins frá Val þar sem hún var frábær.

Hún ætti að þekkja sig vel hjá Þrótti enda er þetta í þriðja sinn sem hún semur við félagið. Hún fór fyrst þangað árið 2021 og svo aftur 2023. Það er því eiginlega orðin hefð að hún mæti í Þrótt annað hvort ár.

Cousins er búin að spila 58 leiki í Bestu deildinni með Val og Þrótti. Í þeim leikjum hefur hún skorað þrettán mörk og lagt upp heilan helling.

„Katie Cousins er án nokkurs vafa einn besti erlendi leikmaðurinn sem leikið hefur á Íslandi frá upphafi og sérstök ánægja að bjóða hana velkomna í Þrótt í þriðja sinn. Hún hefur jafnan sýnt sínar bestu hliðar í Laugardalnum og við hlökkum til að sjá hana í Þróttarbúningnum í sumar. Hún er griðarlega mikilvæg viðbót við Þróttarliðið og bætist við sterkan hóp sem ætlar sér stóra hluti á komandi tímabili,“ segir Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, í fréttatilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×