Handbolti

Valskonur halda besta mark­verði deildarinnar til 2028

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hafdís Renötudóttir verður áfram í markinu hjá Val næstu árin.
Hafdís Renötudóttir verður áfram í markinu hjá Val næstu árin. Vísir/Anton Brink

Valskonur eru staddar út í Vestmannaeyjum þar sem þær áttu að spila bikarleik í kvöld en leiknum var frestað vegna veðurs. Liðið getur þá kannski í staðinn haldið upp á nýjasta samninginn hjá leikmanni liðsins.

Valsmenn sögðu frá því í dag að landsliðsmarkvörðurinn Hafdís Renötudóttir hafi framlengt samning sinn til ársins 2028.

Hafdís hefur varið mark hins sigursæla kvennaliðs Vals frá því að hún gekk til liðs við Val sumarið 2023 auk þess að vera annar aðalmarkvarða íslenska landsliðsins.

„Ég er mjög ánægður að Hafdís hafi framlengt samninginn sinn við Val enda verið lykilleikmaður hjá liðinu undanfarin ár og frábær karakter. Hún passar vel inn í framtíðarplön félagsins og mun án efa halda áfram að vera leiðtogi inn á vellinum og miðla sinni reynslu til yngri leikmanna félagsins“ sagði Anton Rúnarsson nýráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna, á miðlum Vals.

Hafdís Renötudóttir er að flestra mati besti markvörður Olís deildar kvenna. Hún hefur varið flest skot í leik samkvæmt tölfærði HB Statz sem og er síðan með næsthæsta hlutfall varða skota.

Hafdís er með 13,7 varin skot í leik og hefur varið 40,3 prósent skota sem hafa komið á hana. Það er aðeins Ethel Gyða Bjarnasen hjá Fram sem er með hærri prósentu eða 43,4 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×