Erlent

Læknir á­kærður fyrir að á­vísa þungunarrofslyfi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Notkun þungunarrofslyfja er algengasta leiðin til að framkvæma þungunarrof í Bandaríkjunum.
Notkun þungunarrofslyfja er algengasta leiðin til að framkvæma þungunarrof í Bandaríkjunum. EPA/ALLISON DINNER

Bandarískur læknir frá New York var ákærður af kviðdómi fyrir að hafa ávísað og sent ungmenni í Louisana þungunarrofslyf. Mismunandi reglur eru í fylkjunum um þungunarrof.

Margaret Carpenter, læknir í New York, var ákærð af kviðdómi í Louisiana þar sem ungmennið býr. Carpenter á að hafa sent móður ungmennisins lyfið.  Einnig var móðir unglingsins ákærð.

Strangar reglur eru í Louisana um þungunarrof. Engin undantekning er gerð vegna nauðgunar eða sifjaspella. Þungunarrofslyfið er skilgreint sem hættulegt efni. Fólki getur endað í fimm ára fangelsi fái það lyfið án lyfseðils í ríkinu.

„Barn undir lögaldri fannst eitt heima, fannst hún þurfa taka lyfið þar sem að móðir hennar sagði henni að gera það,“ sagði Tony Clayton, aðstoðarhéraðssaksóknari í Louisiana samkvæmt umfjöllun BBC.

Kathy Hochul, ríkisstjóri í New York, sagði að Carpenter yrði ekki framseld til Louisiana vegna málsins.

„Ég er stolt af því að segja að ég mun aldrei, undir neinum kringumstæðum, framselja þennan lækni til Louisiana-ríkis samkvæmt framsalsbeiðni,“ sagði Hochul.

Árið 2023 samþykkti New York fylki lög sem vernda lækna í New York sem ávísa og senda þungunarrofslyf til einstaklinga í fylkjum sem bannað hafa þungunarrof.

Áður hefur verið höfðað mál gegn Carpenter, þá í Texas, fyrir að ávísa konu í Dallas lyfi fyrir þungunarrof.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×