Skoðun

Flóra er ekki fjöl­breytni....

Starri Heiðmarsson skrifar

heldur táknar hugtakið flóra þær tegundir plantna, í víðum skilningi þess orðs, sem vaxa á tilteknu svæði eða tímaskeiði. Þannig vísar flóra Íslands til þeirra tegunda plantna sem vaxa á Íslandi. Garðaflóra Reykjavíkur tiltekur þær tegundir plantna sem finna má í görðum borgarinnar. Flóra vísar ekki einungis til plantna sem finna má á afmörkuðu svæði heldur er hugtakið einnig nýtt til að fjalla um flórur ólíkra jarðsöguskeiða. Þannig er vísað til steingervingaflóru Íslands í umfjöllun um steingervinga fornra rauðviða eða blaðför af elri í Bakkabrúnum sem grófust í set á eldra hlýskeiði ísaldar.

Sambærilegt flórunni er fánan sem tekur þá til dýra, þannig tölum við um fuglafánu Íslands, skeldýrafánu Breiðafjarðar eða spendýrafánu ákveðins svæðis.

Þess leiða ávana gætir nú víða að nota orðið flóra sem einhvers konar fjölbreytnihugtak. Þannig eru nýleg dæmi þar sem talað er um flóru fjárfestinga kaupfélagsins (þetta helst á RÚV 20. janúar), flóra mannlífsins (erindaröð á bókasafni Kópavogs), veitingahúsaflóru o.s.frv. Þessi misnotkun hugtaksins byggir á þeim misskilningi að orðið flóra hafi eitthvað með fjölbreytni að gera en því fer víðs fjarri. Líkt og áður segir þá vísar flóra til plantna á afmörkuðu svæði eða tíma og byggt á aðstæðum getur sú flóra ýmist verið fjölbreytt eða fábreytt sem við Íslendingar ættum að hafa fullan skilning á. Flóra einlendra æðplöntutegunda á Íslandi er til að mynda sérstaklega fábreytt enda telur hún einungis eina tegund, þ.e. tunguskollakamb.

Kæru samnotendur og neytendur íslenskunnar! Má ég biðja ykkur um að spilla ekki merkingu flórunnar með misnotkun hugtaksins. Flóra og fána eru vel afmörkuð hugtök sem nýtast grasa- og dýrafræðingum vel. Vísindaleg hugtök þurfa að vera skýr og vel afmörkuð og hvorutveggja hugtakið, flóra og fána, eru það í núverandi merkingu.

Höfundur er grasafræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra.




Skoðun

Sjá meira


×