Handbolti

„Þetta verður geggjaður leikur“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson.
Óðinn Þór Ríkharðsson. Vísir/Vilhelm

Óðinn Þór Ríkharðsson er ferskur á heimsmeistaramóti karla í handbolta og hefur farið ljómandi vel af stað í hægra horni íslenska landsliðsins í lítt krefjandi leikjum.

Óðinn spilaði sitthvorn hálfleikinn í sigrunum öruggu á Grænhöfðaeyjum og Kúbu í riðlakeppninni í Zagreb. Hann segir ekki hafa verið erfitt að spila leikinn við Kúbu í gær þrátt fyrir stærð sigursins og máttlitla mótstöðu andstæðingsins.

Klippa: Óðinn ferskur og til í Slóvenana

„Mér fannst þetta vera fagmannleg frammistaða í sextíu mínútur, ákefðin góð og við flottir. Maður er alltaf gíraður þegar maður er á stórmóti sama hver mótherjinn,“ segir Óðinn.

Næst er komið að Slóvenum á morgun og spennan töluverð fyrir því verkefni.

„Já, ég held það sé hægt að segja það. Við erum mjög spenntir fyrir þessum leik. Þetta verður geggjaður leikur,“ segir Óðinn.

Hvernig er þetta slóvenska lið?

„Þeir eru með góðan mannskap og flott lið. Þeir spila fjölbreytt og eru öflugir. Það er slatti sem þarf að varast, það sést að þeir eru með fjölbreyttan sóknarleik,“ segir Óðinn.

Hvað þurfa strákarnir að gera til að ná í góð úrslit?

„Við þurfum að hlaupa vel til baka, halda góðri ákefð, hafa góða nýtingu og fækka töpuðum boltum og allt þetta,“ segir Óðinn.

Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.

Ísland og Slóvenía mætast klukkan 19:30 annað kvöld. Strákunum okkar verður áfram fylgt hvert fótmál hér í Zagreb fram að leik, sem og eftir hann.


Tengdar fréttir

Myndasyrpa: Hart barist á æfingu í Zagreb

Strákarnir okkar tóku vel á því á æfingu í íþróttahöll liðsins Tresnjevska hér í borg. Þeir búa sig undir fyrstu alvöru prófraun mótsins. Slóvenar bíða á morgun.

Engar Adidas-treyjur til sölu á HM

Það er nú orðið ljóst að stuðningsmenn Íslands á HM, sem og á Íslandi, geta ekki keypt sér nýja landsliðsbúninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×