Um­fjöllun: Ís­land - Kúba 40-19 | Allt klappað og klárt fyrir úr­slita­leik

Ingvi Þór Sæmundsson og Sindri Sverrisson skrifa
Elliði Snær Viðarsson átti mjög flottan leik í kvöld og forðaðist rauða spjaldið.
Elliði Snær Viðarsson átti mjög flottan leik í kvöld og forðaðist rauða spjaldið. Vísir/Vilhelm

Ísland fer með að minnsta kosti tvö stig í milliriðlakeppni HM í handbolta, eftir annan viðbúinn stórsigur á mótinu, 40-19, gegn Kúbu í Zagreb í kvöld.

Þar með er allt orðið formlega klárt fyrir úrslitaleikinn í G-riðli, við Slóvena á mánudagskvöld, þar sem ræðst hvort að Ísland fær fleiri stig með sér í milliriðilinn.

Fyrirliðinn Aron Pálmarsson er mættur til leiks á HM, sýndi strax heimsklassahæfileika sína og undirstrikaði með mörkum og snilldarstoðsendingum að hann er fullkomlega klár í HM-slaginn, eins og hann hefur talað um sjálfur, þrátt fyrir að sleppa fyrsta leiknum vegna meiðsla.

Aron skoraði þrjú mörk og átti fjórar stoðsendingar á korteri í kvöld. Elliði Snær Viðarsson, Þorsteinn Leó Gunnarsson og Orri Freyr Þorkelsson voru markahæstir með fimm mörk hver, en Snorri Steinn landsliðsþjálfari dreifði álaginu vel á milli manna og ættu allir að geta mætt með ferska fætur í risaleikinn við Slóvena.

Íslenska liðið fékk flottan stuðning í kvöld og svo bætast við fullar flugvélar af fólki nú þegar alvaran tekur við í Zagreb.VÍSIR/VILHELM

Eftir tólf mínútna leik var Aron fyrirliði kominn með þrjú mörk og þrjár stoðsendingar, í algjörum sérflokki á vellinum, og staðan orðin 10-5. Kúbverjar höfðu byrjað leikinn ágætlega og skyttan Frank Cordies þrívegis náð að koma þeim yfir á fyrstu mínútunum, en eftir það og í rauninni frá því að dregið var í riðla fyrir þetta mót, var aldrei spurning að Ísland myndi landa öruggum sigri enda getumunurinn gríðarlegur.

Aron aftur í peysu eftir korter

Íslenska vörnin skellti í lás með Viktor Gísla aftur öryggið uppmálað í markinu, og seinni bylgjan gekk eins smurt og hugsast gat með Aron innanborðs til að smíða auðveld mörk.

Aron fór af velli eftir korter, klæddi sig í peysu og kom ekki meira við sögu, og það virtist ákveðið fyrir fram. Þægilegur leikur fyrir fyrirliðann til að komast af stað aftur eftir sín meiðsli, fyrir slaginn við Slóvena á mánudagskvöld.

Bjarki Már Elísson lék fyrri hálfleik í kvöld og skoraði þrjú mörk.VÍSIR/VILHELM

Elliði skoraði sitt fimmta mark þegar hann stal boltanum, óð fram og jók muninn í 13-5, fullur orku og greinilega staðráðinn í að stimpla sig af alvöru inn í mótið eftir stutta viðveru gegn Grænhöfðaeyjum.

Héldu hreinu í tólf mínútur og skoruðu ellefu

Kúbverjar komust hins vegar ekkert áleiðis gegn Viktori og íslensku vörninni, og heilar tólf mínútur liðu án þess að þeir skoruðu mark á meðan að Ísland skoraði ellefu í röð! Munurinn fór á þessum ótrúlega kafla í tólf mörk, 17-5.

Janus Daði kom inn í sóknarleikinn og hann skoraði tuttugasta mark Íslands, 20-7, þegar enn voru fjórar mínútur eftir af fyrri hálfleiknum, með þrumuskoti. Staðan í hálfleik var svo 21-9, eftir að Viggó Kristjánsson nýtti sitt fjórða víti líkt og hin þrjú fyrri. Allt afslappað og þægilegt eins og sunnudagsmorgunn, en um leið næg ákefð til staðar.

Sigvaldi Björn Guðjónsson einbeittur í skotinu.VÍSIR/VILHELM

Líkt og gegn Grænhöfðaeyjum var álaginu vel dreift í kvöld og nær algjörlega nýtt lið hóf seinni hálfleikinn. Björgvin kom í markið, Orri og Óðinn í hornin, og Þorsteinn og Teitur í skyttustöðurnar.

Þorsteinn kom Íslandi í 24-9 með skoti yfir allan völlinn, eftir að hafa hirt boltann af Kúbverjum, og hann þrumaði svo boltanum tvisvar í netið og jók muninn í 16 mörk.

Sá rautt fyrir brot á Orra

Kúbverjar misstu Malko Vázquez af velli með rautt spjald, þegar átján mínútur voru eftir, fyrir dálítið ljótt brot á Orra í hraðaupphlaupsmarki. Engin spurning með rauða spjaldið þó að íranskir dómarar leiksins vísuðu reyndar röngum manni af velli í upphafi, en þeir leiðréttu það eftir skoðun á myndbandi. Sem betur fer meiddist Orri ekki við þetta högg á öxlina.

Línumaðurinn Sveinn Jóhannsson var mættur í nýja treyju með merkingum í lagi og skoraði sitt fyrsta mark á HM, með skoti beint úr miðju í anda Elliða kollega hans, þegar korter var til leiksloka. Munurinn varð þá átján mörk, 31-13.

Orri og Þorsteinn héldu áfram að raða inn mörkum og það kom aldrei neinn sérstaklega slæmur kafli hjá íslenska liðinu, þrátt fyrir augljóst svigrúm til að slaka á. Orri kom muninum í 23 mörk með sínu þriðja marki í röð, 39-16, þegar sex mínútur voru eftir.

Kúbverjar skoruðu síðasta mark leiksins og lokatölur 40-19, í þessum seinni upphitunarleik fyrir alvöru lífsins sem hefst á mánudagskvöld klukkan 19:30.

Viðtöl, einkunnir, pistill frá Zagreb og fleira til væntanlegt inn hér á Vísi í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira