Körfubolti

Ein svakalegasta troðsla tíma­bilsins fékk ekki að standa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ja Morant setti Victor Wembanyama á veggspjald eins og krakkarnir segja.
Ja Morant setti Victor Wembanyama á veggspjald eins og krakkarnir segja.

Ja Morant, leikmaður Memphis Grizzlies, sýndi frábær tilþrif er hann tróð yfir Victor Wembanyama, leikmann San Antonio Spurs, í leik liðanna í NBA-deildinni í nótt. Því miður fyrir Morant taldi karfan ekki.

Morant skoraði 21 stig og gaf tólf stoðsendingar þegar Memphis bar sigurorð af San Antonio á útivelli, 115-129. Hann var stigahæstur í liði Grábjarnanna ásamt Desmond Bane.

Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum fór Morant framhjá Stephon Castle og óð í átt að körfunni. Þar beið hans hinn 2,24 metra hái Wembanyama. Morant setti það ekki fyrir sig og tróð yfir Frakkann.

Þessi tilkomumikla troðsla taldi hins vegar ekki þar sem dómararnir voru búnir að dæma villu á Castle. Tilþrifin voru þó glæsileg.

Morant og félagar í Memphis eru í 3. sæti Vesturdeildarinnar með 26 sigra og fimmtán töp. Í vetur er Morant með 21,4 stig, 4,3 fráköst og 7,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×