Körfubolti

„Svo ömur­legt sem þjálfari að upp­lifa þetta“

Sindri Sverrisson skrifar
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, er jafnan líflegur á hliðarlínunni.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, er jafnan líflegur á hliðarlínunni. vísir/Hulda Margrét

Þjálfarinn Viðar Örn Hafsteinsson virðist hafa mun meiri ástríðu fyrir gengi Hattar en leikmennirnir sem hann stýrir, að mati sérfræðinga Bónus Körfuboltakvölds.

Höttur tapaði gegn Keflavík í Bónus-deildinni á fimmtudaginn, 112-98, og situr í fallsæti með átta stig eftir þrettán leiki.

„Miðað við hvað Viðar er ástríðufullur þjálfari þá fannst mér þetta ótrúlega flatt hjá þeim. Það er engin ástríða í þessum leik hjá þeim. Ég held að það skrifist ekki á Viðar. Hann er með tilfinningar og sýnir þær. En þú ert með lið í höndunum og leikmennirnir þurfa líka að bera ábyrgð. Mér leið bara eins og menn væru: „Jæja, ég er búinn með 10.000 skref, hvenær er flugið?“ Þetta var upplifunin mín,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson í Körfuboltakvöldi á föstudaginn, en brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld - Viðar sá eini með ástríðu hjá Hetti

Höttur skipti Bandaríkjamanninum Courvoisier McCauley út fyrir Justin Roberts en það virðist því miður hafa gert illt verra:

„Þetta er ein af þeim ákvörðunum sem hafa reynst rangar, eftir á að hyggja. Hún var samt rétt á þeim tímapunkti sem hún var tekin, en því miður fyrir þá, þá fengu þeir ekki nægilega sterkan leikmann inn í liðið í staðinn,“ sagði Jón Halldór.

Hermann Hauksson tók undir þetta:

„Hött vantar stærri karakter – leiðtoga inn á völlinn. Þetta er svo skrýtið lið. Þeir vinna oft ótrúlegustu leiki en eru svo bara ekki með í mörgum leikjum,“ sagði Hermann og Jón Halldór bætti við:

„Mér leið bara eins og leikmönnum væri fokk sama. Á meðan var Viðar greyið þarna á hliðarlínunni og hann skildi ekkert í því að það voru engin viðbrögð hjá leikmönnunum. Það er svo ömurlegt sem þjálfari að upplifa þetta, og hann er að upplifa þetta leik eftir leik.“

„Það er verst þegar þjálfarinn er með mesta passionið,“ sagði þá Hermann og hélt áfram: „Samkvæmt þessu er Viðar eini gæinn sem þurfti að fara í sturtu eftir leikinn. Þetta er sorglegt og það er svo vont þegar þessi ástríða sem Viðar hefur nær ekki að smitast í leikmenn. Það er mikið af ólíkum karakter þarna og sorglegt að það sé ekki að minnsta kosti einn sem tekur þetta á sig og vill drífa liðið áfram. Það er enginn þannig þarna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×