Körfubolti

Njarð­vík á að stefna á þann stóra

Stefán Árni Pálsson skrifar
Pavel er hrifinn af Njarðvíkingum.
Pavel er hrifinn af Njarðvíkingum.

Njarðvík vann frábæran sigur á Þór Þorlákshöfn 106-104 í Bónus-deild karla á fimmtudagskvöldið. Það sem gerir sigur Njarðvíkinga sérstaklega góðan er að þeir Khalil Shabazz og Dwayne Lautier voru báðir fjarverandi. Leikmenn sem teljast báðir með þeim betri í deildinni.

Aðrir stigu einfaldlega upp. Þórsarar ætla sér stóra hluti á tímabilinu en varnarleikur liðsins olli Pavel Ermilinskij vonbrigðum í síðasta þætti af Körfuboltakvöldi.

„Að mæta þessu Njarðvíkurliði þar sem það vantar tvo bestu skorarana þá er varnarplanið þitt mjög einfalt. Það er Evens [Ganapamo] og Veigar [Páll Alexandersson] sem eru að fara gera fullt og Milka, þú þarft að halda honum frá boltanum. Enginn af þessum leikmönnum hafði eitthvað mikið fyrir því að skora sín stig,“ segir Pavel og heldur áfram.

„Stór hluti af hópnum þeirra er ekki þekktur fyrir það að vera góðir varnarmenn. Mitt vandamál með Þór er að í fyrri umferðinni, í þessum fyrstu ellefu umferðum, unnu þeir þá leiki sem þeir áttu að vinna. En þegar þeir spila við þessi sterku lið, liðin sem eru líklegust til þess að verða Íslandsmeistarar þá áttu þeir ekki séns,“ segir Helgi Már Magnússon.

Báðir voru þeir sammála um að Þór ætti ekki möguleika á því að verða Íslandsmeistari.

„En hitt liðið á stefna á það. Ég verð að koma því fram. Við vorum með ákveðnar væntingar fyrir Njarðvík fyrir tímabilið en við þurfum bara að endurmeta þær væntingar núna. Ef það er eitthvað lið í deildinni sem ætti að vera hugsa að núna, öll hin liðin eru eitthvað smá skrýtin og við erum með þessi tvö lið þarna uppi og við ætlum bara að bíða eftir að þau klikki eitthvað, það er Njarðvík,“ segir Pavel.

Hér að neðan má sjá umræðuna úr síðasta þætti af Körfuboltakvöldi.

Klippa: Njarðvík á að stefna á þann stóra



Fleiri fréttir

Sjá meira


×