Skoðun

Yrkjum lífs­gæði í Dölunum

Björn Bjarki Þorsteinsson skrifar

Gleðilegt nýtt ár kæri lesandi, nú í upphafi árs 2025 langar mig til að vekja athygli á eftirfarandi verkefnum sem við í Dalabyggð höfum unnið með íbúum í Dölunum að undanfarin misseri í samstarfi við fleira gott fólk .

Annars vegar er um að ræða gerð verkfærakistu í markaðssetningu, sem sveitarfélagið Dalabyggð og fyrirtæki – og í raun allir áhugasamir í Dölunum geta nýtt sér nú í framhaldi. Verkfærakistan er aðallega hugsuð til að miðla heilstæðri sýn á sveitarfélagið og samfélagið allt út á við, þar sem slagorðið er:

„Við yrkjum lífsgæði í Dölunum“.

Ráðgjafafyrirtækið Cohn&Wolfe á Íslandi var samstarfsaðili okkar við gerð fyrrnefndrar verkfærakistu en verkefnið er í grunninn samstarfsverkefni Dalabyggðar og SSV (Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi) og styrkt af C1 potti Byggðaáætlunar. Það er ansi margt jákvætt sem hægt er að miðla um Dalina s.s. eins og hvernig hrein náttúra, gott samfélag og mikil landgæði í bland við sterk lýðgæði eru grundvöllur farsæls samfélags sem byggir á lífsgæðum.

Frétt um verkefnið og verkfærakistuna má nálgast á heimasíðu Dalabyggðar í gegnum eftirfarandi slóð.

Í tengslum við verkefnið var einnig útbúið kynningarmyndband sem margmiðlunarfyrirtækið Broadstone útbjó, byggt m.a. á ofangreindri verkfærakistu og má sjá hér.

Myndbandið er afrakstur vinnu sem sveitarfélagið og ferðaþjónar í Dölunum tóku þátt í á árinu 2024. Tekið var upp kynningarefni í Dölunum í febrúar og júlí og er búið að búa til margmiðlunarsíðu úr því þar sem gisting, afþreying og fleira áhugavert í Dölunum er kynnt til leiks. Það er heimamaðurinn, bóndinn og félagsmálafrömuðurinn Steinþór Logi Arnarsson sem er andlit Dalanna í þessu markaðsefni sem sérsniðið er að erlendum markaði, ferðaskrifstofum og þeim sem eru að skipuleggja ferðalag í Dalina.

Ég hvet ykkur ágætu lesendur til að kíkja á afraksturinn og í framhaldinu reikna ég með ykkur í heimsókn í Dalina á árinu mín kæru því hér er mannlíf gott og ferðaþjónar og samfélagið allt tilbúið til að taka á móti góðum gestum því hér í Dölunum „yrkjum við lífsgæði“ í einstöku söguhéraði þar sem loftgæði eru einstök og landgæðin sömuleiðis. Dalirnir eru í þessum skilningi eins og falin perla, fagur happafengur þeim sem uppgötva

Dalirnir heilla !

Höfundur er sveitarstjóri í Dalabyggð




Skoðun

Sjá meira


×