Fótbolti

Bjargaði æskufélaginu sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andras Schäfer í leik með þýska félaginu Union Berlin. Hann er enn þakklátur æskufélagi sínu og sýndi það í verki.
Andras Schäfer í leik með þýska félaginu Union Berlin. Hann er enn þakklátur æskufélagi sínu og sýndi það í verki. Getty/Arne Dedert

Ungverski knattspyrnumaðurinn Andras Schäfer kom til bjargar á síðustu stundu og sá til þess að æskufélagið hans fór ekki á hausinn.

Haladas Szombathely barðist við það forða sér frá gjaldþroti í heimalandi hans en félagið átti sér góðan mann hjá þýska félaginu Union Berlin.

Schäfer er nú 25 ára gamall en hann lék með Haladas Szombathely frá 2010 til 2014 eða þegar hann var á aldrinum ellefu til fimmtán ára. Hann fór þaðan til stórliðsins MTK frá Búdapest og svo áfram til Ítalíu.

Schäfer lék á Ítalíu og í Slóvakíu en hefur verið hjá Berlínarliðinu frá því í janúar 2022.

Hann var reiðubúinn að koma til bjargar og svara neyðarkallinu frá sínu gamla félagi.

Schäfer sendi félaginu tvisvar sinnum pening og upphæðin var samtals um fjörutíu þúsund evrur eða um 5,8 milljónir króna.

Félagið sendi út neyðarkall um að það þyrfti að safna 120 þúsund evrum, rúmum sautján milljónum, fyrir árslok til að geta haldið áfram rekstri.

Það voru því fleiri sem komu að því að ná söfnuninni í land en Schäfer gaf ekki einu sinni heldur tvisvar. Seinna framlag hans sá til þess að markmiðinu var náð.

Andras Schäfer er miðjumaður og auk þess að spila með Union Berlin í Þýskalandi þá er hann einnig ungverskur landsliðsmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×