Erlent

Fjölda­morðinginn í Svart­fjalla­landi svipti sig lífi

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn athafna sig á vettvangi skotárásarinnar Í Cetinje í Svartfjallalandi á nýársdag. Cetinje er smábær um 36 kílómetra vestur af höfuðborginni Podgorica.
Lögreglumenn athafna sig á vettvangi skotárásarinnar Í Cetinje í Svartfjallalandi á nýársdag. Cetinje er smábær um 36 kílómetra vestur af höfuðborginni Podgorica. AP/Risto Bozovic

Karlmaður á fimmtugsaldri sem skaut tólf manns til bana í smábæ í Svartfjallalandi á nýársdag svipti sig lífi eftir að lögreglumenn króuðu hann af. Forsætisráðherra landsins segir til greina koma að banna skotvopn í landinu í kjölfar fjöldamorðsins.

Lögregla segir að Aleksandar Martinovic hafi gert tilraun til þess að svipta sig lífi nærri heimili sínu í bænum Cetinje þegar hann sá sér ekki lengur undankomu auðið. Hann hafi látist á leiðinni á sjúkrahús.

Martinovic lagði á flótta eftir að hann hóf skothríð og skaut fjóra til bana á veitingahúsi í Cetinje í gær. Reuters-fréttastofan segir að hann hafi síðan farið á þrjá aðra staði og skotið þar átta manns til bana til viðbótar, þar á meðal tvö börn. 

Martinovic er sagður hafa drukkið ótæpilega áður en morðæðið rann á hann. Til handalögmála hafi komið á veitingahúsinu við aðra viðskiptavini. Hann hafi farið heim til sín, sótt þangað skotvopn og svo snúið aftur á veitingastaðinn þar sem hann hóf skothríð. Lögregla telur ekki að árásin tengist skipulagðri glæpastarfsemi.

Þrátt fyrir að fjöldaskotárásir séu tiltölulega fátíðar í Svartfjallalandi féllu ellefu manns í Cetinje, þar á meðal tvö börn og byssumaðurinn sjálfur, í skotárás árið 2022.

Vopnalöggjöfin í landinu er sögð ströng en Milojko Spajic, forsætisráðherra Svartfjallalands, segir koma til greina að herða skilyrði fyrir vopnaeign og burði. Hann útilokar ekki að skotvopn verði bönnuð alfarið.

Fréttin var uppfærð eftir að tala látinna hækkaði úr tíu í tólf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×