Körfubolti

Fer­tugur LeBron gæti spilað „fimm til sjö ár“ til við­bótar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tíminn hefur ekki hægt mikið á LeBron James. 
Tíminn hefur ekki hægt mikið á LeBron James.  Thearon W. Henderson/Getty Images

LeBron James fagnaði fertugsafmæli sínu í gær. Hann er á tuttugasta og öðru tímabilinu í NBA en segist eiga nóg eftir, ef hann svo kýs.

LeBron hefur fagnað ótal afrekum á sínum langa ferli og verður síðar í dag þrítugasti og annar leikmaðurinn til að spila í NBA eftir að hafa orðið fertugur. Það gerir hann gegn sínu heimaliði Cleveland Cavaliers. 

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn, ef ég virkilega vildi, þá gæti ég spilað á þessu getustigi í – það er skrítið að segja það, en örugglega önnur fimm til sjö ár. En ég ætla ekki að gera það,“ sagði LeBron sem ætlar ekki að hætta tilneyddur. 

Hann hefur mikið fyrir sér og er enn að afkasta mikið inni á vellinum. Með 23,5 stig á 49,6 prósent skotnýtingu, 9 stoðsendingar og 7,9 fráköst að meðaltali í leik. Hann hefur aðeins misst af þremur leikjum það sem af er. Lið hans, Los Angeles Lakers, er í sjöunda sæti vesturdeildarinnar með átján sigra og þrettán töp.

Markmið hans um að spila með syni sínum náðist í opnunarleik tímabilsins.

„Ég mætti í deildina sem átján ára leikmaður og sit núna sem fertugur reynslubolti með tvítugum syni mínum. Það er frekar töff.“

LeBron sagði Lakers ekki lið sem gæti keppt um NBA titilinn að svo stöddu, en það væri jákvætt því þá væri mikið rými til bætinga.

Hann segist heldur ekki ætla sér að spila fyrir annað lið áður en ferlinum lýkur og ef það gerist að Lakers vinna titilinn í vor og hann ákveður að hætta, mun hann aldrei snúa aftur á völlinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×