Umræðan

Hluta­bréfa­markaður í sókn

Magnús Harðarson skrifar

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur verið í sókn á liðnu ári, þrátt fyrir hátt vaxtastig. Áframhaldandi fjölgun félaga í Nasdaq Iceland (Kauphöllinni), sókn félaga í tvískráningu á íslenska markaðnum, yfirtaka John Bean Technologies á Marel, aukning viðskipta og prýðileg ávöxtun einkenndu markaðinn á árinu.

Nú um áramót stendur fjöldi skráðra félaga í Kauphöllinni í 33, þar af 28 á Aðalmarkaðnum og 5 á First North vaxtarmarkaðnum, og hafa þau ekki verið fleiri síðan 2005. Tvær nýskráningar áttu sér stað á árinu. Líftæknifyrirtækið Oculis var skráð á Aðalmarkaðinn og laxeldisfyrirtækið Kaldvík á First North vaxtarmarkaðinn.

Tvískráningum fjölgar

Það er athyglisvert að bæði félögin voru fyrir skráð á erlenda markaði, Oculis á Nasdaq í New York og Kaldvík á Euronext Growth í Osló. Aukin tilhneiging hefur verið til tvískráninga á íslenska markaðnum á undanförnum árum og þá oftar en ekki verið um að ræða skráningu í Kauphöllina í framhaldi af skráningu erlendis fremur en öfugt. Sjö af 33 félögum í Kauphöllinni eru nú tvískráð og er markaðsvirði þeirra hvorki meira né minna en um helmingur markaðsvirðis allra skráðra félaga. Fjárhæð viðskipta með hlutabréf tvískráðu félaganna er einnig um helmingur af heildarveltunni á íslenska hlutabréfamarkaðnum.

Á erlendu mörkuðunum hafa tvískráðu félögin hins vegar almennt betri aðgang að sérhæfðum fjárfestum í þeirra geirum.

En hvað ræður því að félag eins og Oculis, sem komst í fyrra á stóra sviðið í helstu líftæknikauphöll heims, Nasdaq í New York, og Kaldvík, sem skráð er í þekktri fiskeldiskauphöll, kjósa að skrá sig í Kauphöllina? Þar ræður miklu sterk tenging félaganna við Ísland, íslenskur uppruni og starfsemi á Íslandi. Þetta á við um öll tvískráðu félögin sjö. Þau eru því þekktari meðal almennings og fjárfesta af almennari gerðinni, eins og verðbréfasjóða og lífeyrissjóða, heldur en á erlendu mörkuðunum. Þetta þýðir aukna möguleika til fjármögnunar og aukinn seljanleika með hlutabréfin, sem er til þess fallið auka virði þeirra. Á erlendu mörkuðunum hafa tvískráðu félögin hins vegar almennt betri aðgang að sérhæfðum fjárfestum í þeirra geirum.

Nú er ljóst að næst verðmætasta félagið í Kauphöllinni, Marel, verður tekið yfir af bandaríska fyrirtækinu John Bean Technologies, sem skráð er á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum, og verður því afskráð eftir yfir 32 ár í Kauphöllinni. Ekkert félag hefur verið lengur skráð í Kauphöllinni. En sem betur fer kveður félagið ekki Kauphöllina alfarið, því JBT sér hag í því að verða tvískráð á íslenska markaðnum og mun verða skráð á Aðalmarkaðinn í byrjun næsta árs.

Viðskipti jukust og ávöxtun sú hæsta á Norðurlöndunum

Viðskipti með hlutabréf í Kauphöllinni tóku við sér á árinu, jukust um yfir 30% frá fyrra ári og er fjárhæð viðskipta nálægt hámarki síðustu 16 ára. Hlutabréfaverð tók einnig við sér og þegar þetta er skrifað (20. des.) er ávöxtun frá ársbyrjun (að teknu tilliti til arðgreiðslna) tæp 12% og sú hæsta á Norðurlöndunum. Væntingar um áframhaldandi vaxtalækkanir hafa vafalítið átt mikilvægan þátt í þessari þróun.

Án öflugs innlends hlutabréfamarkaður dregur úr möguleikum félaga til fjármögnunar niður alla fjármögnunarkeðjuna.

En þrátt fyrir að þróunin hafi almennt verið í rétta átt á innlendum hlutabréfamarkaði á árinu þá gekk ekki allt eins og vonir stóðu til. Íslandshótel hættu við skráningu á Aðalmarkaðinn í vor í framhaldi af hlutafjárútboði sem ekki stóðst væntingar félagsins. Á þessum tíma var ferðaþjónustan í nokkrum mótbyr m.a. vegna heldur ónákvæms fréttaflutnings erlendis af eldgosum á Reykjanesskaga. Annað félag í ferðaþjónustu, flugfélagið PLAY, sá hins vegar færi í því í sumar að færa sig af First North vaxtarmarkaðnum á Aðalmarkaðinn í framhaldi af hlutafjáraukningu félagsins í vor.

Horfur eru góðar sé vel haldið á spilunum

Skráningarhorfur eru góðar og útlit er fyrir að á næsta ári verði framhald á þeirri skráningarbylgju sem hófst árið 2021. Við í Kauphöllinni gerum ráð fyrir 3-5 nýskráningum á árinu. Byggir þetta mat á samtölum við félög í skráningarhugleiðingum og markaðsaðila sem og væntingum um lækkandi vaxtastig. Það eru því horfur á áframhaldandi vexti íslenska hlutabréfamarkaðarins á næsta ári og raunar á næstu árum, sé vel haldið á spilunum. Þetta er mikilvægt, ekki vegna þess að vöxtur hlutabréfamarkaðar sé markmið í sjálfu sér, heldur vegna þeirrar þýðingar sem öflugur innlendur hlutabréfamarkaður hefur fyrir fjármögnun í atvinnulífinu langt út fyrir hin skráðu félög og þar með möguleika íslensks atvinnulífs til nýsköpunar og vaxtar. Án öflugs innlends hlutabréfamarkaður dregur úr möguleikum félaga til fjármögnunar niður alla fjármögnunarkeðjuna.

Til að tryggja megi áframhaldandi uppbyggingu hlutabréfamarkaðarins og styrkingu fjármögnunarumhverfis íslensks atvinnulífs til langs tíma er mikilvægt að við mátum umgjörð hlutabréfamarkaðarins í víðum skilningi, þ.m.t. ýmis lög og reglugerðir, sem og hvata til fjárfestinga við það sem best gerist í nágrannaríkjunum. Með því hámörkum við líkurnar á því að nýta til fulls möguleikana sem felast í íslensku hugviti og elju.

Höfundur er forstjóri Nasdaq Iceland.






×