Erlent

Þýska sam­bands­þingið leyst upp

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, hefur samþykkt að leysa upp sambandsþingið að beiðni Olafs Scholz, kanslara.
Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, hefur samþykkt að leysa upp sambandsþingið að beiðni Olafs Scholz, kanslara. AP Photo/Ebrahim Noroozi

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, hefur leyst upp sambandsþingið og boðað til þingkosninga á nýju ári. Þetta gerir hann í kjölfar þess að Olaf Scholz, kanslari, fór fram á þingrof eftir að vantraust á hendur honum var samþykkt í þinginu.

Steinmeier hefur eins staðfest að gengið verði að kjörborðinu 23. febrúar næstkomandi líkt og Scholz hafði lagt til, samkvæmt frétt Spiegel

Scholz óskaði sjálfur eftir því um miðjan desember að greidd yrðu atkvæði um vantraust, sem er einfaldasta leiðin til að rjúfa þing og tryggja nýjar kosningar. Tveir mánuðir eru liðnir síðan þriggja flokka samsteypustjórn Scholz sprakk vegna ágreinings um efnahagsstefnu. 

Steinmeier hefur undanfarna tíu daga rætt við formenn annarra þingflokka til að kanna möguleika á öðrum meirihluta, sem hann segir ekki til staðar. Þetta sé því eini möguleikinn í stöðunni.

Það hefur örsjaldan gerst að sambandsþingið sé leyst upp áður en kjörtimabili líkur. Vantrauststillagan á hendur Scholz er sú sjötta sem lögð hefur verið fyrir þingið frá árinu 1949. Í þremur tilvikum hefur slík tillaga leitt til þess að þingið hafi verið leyst upp. Það var í valdatíð Willy Brandt, árið 1972, Helmut Kohl árið 1982 og Gerhard Schröder árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×