Skoðun

Vinnu­lag í rannsókna­verk­efnum er ekki vís­bending um stjórnar­hætti þess sem borgar

Haraldur Ólafsson skrifar

Andrés Pétursson fjallar um stöðu smáþjóðar í Evrópusambandi í Vísi 11. desember 2024. Tilefnið er að líkindum að Hjörtur J. Guðmundsson hefur í ýmsu samhengi minnt á að örþjóð á borð við Íslendinga sé að heita má valdalaus í Evrópusambandinu.

Í grein Andrésar er fjallað um fögrum orðum um ýmis konar evrópsk samvinnuverkefni í vísindum og listum, hversu góð þau séu og að í þeim verkefnum séu menn alls ekki vondir við Íslendinga eða menn af öðrum smáþjóðum og allir jafnir. Tvennt ættu lesendur að íhuga í sambandi við þessi skrif.

Í fyrsta lagi er ekkert samhengi milli verklags í einstökum verkefnum sem Evrópusambandið styrkir og stjórnarhátta Evrópusambandsins. Í verkefni um æviskeið ánamaðka er hlustað af athygli á líffræðing frá Möltu, ef hann hefur eitthvað merkilegt að segja. Við stjórn Evrópusambandsins hefur Malta hins vegar lítil sem engin völd. Maltverjar verða að búa við löggjöf sem mótuð er að þörfum stórveldanna, hvort sem hún hentar þeim eða ekki. Reyndar má segja að annað væri ólýðræðislegt.

Í öðru lagi hafa mörg Evrópuverkefni í vísindum, menntun og annarri menningu sjálfsagt skilað einhverju, og sum ef til vill miklu. Ekkert vitum við þó um hversu miklu verkefnin hefðu skilað ef Evrópusambandið hefði ekki haft milligöngu um fjármögnun verkefnanna, tekið sér bita til eigin þarfa og sett stimpil sinn á þau. Það eru ýmsar leiðir til að borga fyrir vísindi og listir og engin ástæða til að ætla að besta leiðin sé fundin í sjóðum Evrópusambandsins.

Staðreyndin er eftir sem áður að örþjóð á borð við Íslendinga hefur lítil sem engin völd þegar kemur að stjórn og löggjöf Evrópusambandsins. Annað væri svo ólýðræðislegt að meira að segja Evrópusambandið gæti ekki verið þekkt fyrir slíkt.

Höfundur er formaður Heimssýnar, félags um fullveldi Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×