Enski boltinn

„Ekki það góður leik­maður miðað hvað við tölum mikið um hann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marcus Rashford hefur verið mikið til umræðu síðustu vikuna.
Marcus Rashford hefur verið mikið til umræðu síðustu vikuna. getty/Stephen White

Jamie Carragher segir að það sé talað gríðarlega mikið um Marcus Rashford miðað við ekki betri leikmann.

Rashford hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga. Hann var ekki í leikmannahópi Manchester United í sigrinum á Manchester City á sunnudaginn og á þriðjudaginn fór hann í viðtal þar sem hann kvaðst vera tilbúinn fyrir nýja áskorun á ferlinum.

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri United, sagði að félagið þyrfti á Rashford að halda en valdi hann ekki í leikmannahópinn fyrir leikinn gegn Tottenham í deildabikarnum í gær.

Carragher finnst umræðan um Rashford vera of mikil, fyrir ekki betri leikmann.

„Mér finnst eins og ég hafi verið að tala um Marcus Rashford alla síðustu viku. Eins og ég hef áður sagt er hann ekki það góður leikmaður miðað við hvað við tölum mikið um hann. Wayne Rooney, David Beckham og Cristiano Ronaldo voru það,“ sagði Carragher.

Hann segir að Rashford hafi sett United í slæma stöðu með því tilkynna að hann væri tilbúinn að fara annað.

„Ég er ekki fylgjandi því að leikmaður komi fram opinberlega og gagnrýni félagið. En fyrir Rashford að gera þetta, að koma fram án vitneskju félagsins og tilkynna nánast að hann hafi óskað eftir sölu eða hann vilji yfirgefa félagið setur það í mjög erfiða samningsstöðu,“ sagði Carragher.

„Ef hann vill vera leikmaður United og vill enn eiga frábæran feril segirðu ekki svona. Þú heldur þér saman, berst og vonast eftir tækifæri.“

Rashford hefur skorað sjö mörk í 24 leikjum fyrir United á þessu tímabili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×