Enski boltinn

Hefði viljað að Rashford hefði talað við sig fyrir við­talið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim og Marcus Rashford á æfingu Manchester United.
Ruben Amorim og Marcus Rashford á æfingu Manchester United. getty/Martin Rickett

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, hefði kosið að Marcus Rashford hefði rætt við sig áður en hann fór í viðtal þar sem hann sagðist vera tilbúinn fyrir nýja áskorun.

„Ég tel sjálfur að ég sé tilbúinn í nýja áskorun og næstu skref,“ sagði Rashford meðal annars í viðtali í fyrradag.

Rashford og Alejandro Garnacho voru ekki valdir í leikmannahóp liðsins fyrir stórleikinn við Manchester City á sunnudag. Rashford er heldur ekki í leikmannahópi United fyrir leikinn gegn Tottenham í enska deildabikarnum í kvöld.

Á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Spurs var Amorim spurður út í viðtalið við Rashford. Hann sagðist ekki hafa rætt við leikmanninn eftir að viðtalið kom út en sagði að það væri pláss og þörf fyrir hann hjá United.

Amorim hefði þó kosið að Rashford hefði rætt við sig fyrst, áður en hann fór í viðtalið.

„Ef þetta væri ég hefði ég sennilega talað við stjórann en einbeitum okkur að Tottenham,“ sagði Amorim.

„Það er erfitt fyrir mig að skýra út fyrir ykkur hvað ég ætla að gera. Ég er svolítið tilfinningaríkur svo ég mun ákveða hvað ég geri í augnablikinu.“

United vann endurkomusigur á City á sunnudaginn, 1-2. Liðið sækir Tottenham heim í átta liða úrslitum enska deildabikarsins í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×