Íslenski boltinn

Stefán Þór Þórðar­son í þjálfarastarf hjá Skaga­mönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Þór Þórðarson á dögum sínum sem leikmaður Stoke City í Englandi. Hann hefur mikla reynslu frá atvinnumannaferli sínum.
Stefán Þór Þórðarson á dögum sínum sem leikmaður Stoke City í Englandi. Hann hefur mikla reynslu frá atvinnumannaferli sínum. Getty/ Steve Mitchell

Stefán Þór Þórðarson hefur verið ráðinn nýr þjálfari hjá Knattspyrnufélagi ÍA en félagið tilkynnir þetta á miðlum sínum í dag.

Stefán mun þjálfa 2. flokk karla hjá félaginu sem og halda utan um einstaklingsmiðaða þjálfun þvert á flokka félagsins með það að markmiði að aðstoða leikmenn við að ná hámarksárangri.

Þá mun Stefán einnig starfa sem sjúkranuddari í meistaraflokkum félagsins.

Stefán Þór á yfir tvö hundruð leiki með Knattspyrnufélagi ÍA, sex landsleiki og eitt mark fyrir Íslands hönd og hann á að baki langan atvinnumannaferil með liðum eins og Brann, Öster, Stoke City og Norrköping.

Síðustu leiki sína með Skagamönnum lék Stefán í B-deildinni tímabilin 2010 og 2011. Hann varð þrisvar Íslandsmeistari með ÍA en hann var í meistaraliðunum 1994, 1995 og 1996 áður en hann fór út í atvinnumennsku.

Skagamenn segjast vera bæði spenntir og ánægðir yfir því að fá Stefán Þór til starfa hjá félaginu og vænta þess að reynsla hans og þekking nýtist í starfi félagsins á komandi tímum.

Stefán Þór er ekki sá eini í fjölskyldunni hjá félaginu því sonur hans Oliver Stefánsson er leikmaður karlaliðsins.

Stefán Þór hefur störf hjá KFÍA 1. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×