Enski boltinn

Mudryk í á­falli eftir að hafa fallið á lyfjaprófinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mykhaylo Mudryk kom til Chelsea frá Shakhtar Donetsk í fyrra.
Mykhaylo Mudryk kom til Chelsea frá Shakhtar Donetsk í fyrra. getty/Daniel Kopatsch

Mykhailo Mudryk, leikmaður Chelsea, kveðst vera í áfalli eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Hann segist aldrei hafa notað ólögleg efni viljandi.

Í morgun var greint frá því að ólöglegt efni hefði fundist í sýni Mudryks. Chelsea sagði að enska knattspyrnusambandið hefði sett sig í samband við félagið vegna þess.

Mudryk hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segist vera í áfalli og harðneitar að hafa haft rangt við.

„Ég er í algjöru áfalli því ég hef aldrei notað ólögleg efni viljandi eða brotið neinar reglur. Ég vinn náið með teymi mínu að að rannsaka hvernig þetta gat gerst,“ skrifaði Mudryk á Instagram.

„En ég veit að ég gerði ekkert rangt og er bjartsýnn að ég snúi fljótlega aftur á völlinn.“

Samkvæmt reglum enska knattspyrnusambandsins fara leikmenn sem falla á lyfjaprófi sjálfkrafa í ótímabundið bann. Enska knattspyrnusambandið gat hins vegar ekki staðfest við BBC að sú sé raunin í tilfelli Mudryks.

Leikmenn sem nota ólögleg efni viljandi eiga yfir höfði sér allt að fjögurra ára bann.

Mudryk hefur ekki verið í leikmannahópi Chelsea í síðustu leikjum. Enzo Maresca, knattspyrnustjóri liðsins, hefur sagt að hann sé veikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×