Viðskipti erlent

Bitcoin nær nýjum hæðum vegna Trumps

Samúel Karl Ólason skrifar
Virði Bitcoin hafði í nótt hækkað um 192 prósent á þessu ári.
Virði Bitcoin hafði í nótt hækkað um 192 prósent á þessu ári. AP/Kin Cheung

Virði rafmyntarinnar Bitcoin náði nýjum hæðum í gærkvöldi. Það var eftir að Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, gaf í skyn að hann myndi koma á laggirnar rafmyntarforða Bandaríkjanna.

Við það skaust virði Bitcoin, sem er þekktasta rafmynt heims, upp og fór það í fyrsta sinn upp fyrir 106 þúsund dali. Þegar virðið fór hvað hæst var það um 14,7 milljónir króna, fyrir eina Bitcoin.

Síðan þá hefur virðið lækkað aftur lítillega.

Eins og fram kemur í frétt Reuters hafði virði Bitcoin, þegar mest var, hækkað um 192 prósent á þessu ári. Fréttaveitan segir að þessar hækkanir megi að miklu leyti rekja til væntinga fjárfesta til ríkisstjórnar Donalds Trump. Virðið hefur hækkað um rúm fimmtíu prósent frá því hann sigraði forsetakosningarnar í nóvember.

Búist er við því að hann og aðstoðarmenn hans muni auðvelda regluverk og bæta viðhorf fólks til rafmynta. Þó hann hafi á árum áður talað um rafmyntir sem svikamyllu hefur viðhorf Trumps til þeirra breyst mjög.

Sérfræðingar telja að ríkisstjórnir eigi um 2,2 prósent af öllum Bitcoin-forða heimsins og þar af eigi Bandaríkin nærri því tvö hundruð þúsund myntir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×