Enski boltinn

Coot­e rekinn úr ensku úr­vals­deildinni eftir al­var­leg brot

Aron Guðmundsson skrifar
David Coote hefur verið á milli tannanna á fólki síðustu vikur og mánuði
David Coote hefur verið á milli tannanna á fólki síðustu vikur og mánuði Vísir/getty

Knattspyrnudómarinn David Coote hefur verið rekinn úr starfi sínu sem dómari í ensku úrvalsdeildinni. Þetta staðfesta ensku dómarasamtökin PGMOL í dag.

Ítarleg rannsókn var sett af stað á hegðun Coote eftir ítrekuð vandræðamál tengd honum. 

Coote kom sér fyrst í vandræði þegar birtist myndband á netinu af honum að tala illa um Liverpool og fyrrum knattspyrnustjóra þess Jürgen Klopp. Hann kallaði Klopp ljótum nöfnum.

Aðeins tveimur dögum síðar kom fram annað myndband. Í því myndbandi tók Coote sig sjálfur upp og sendi vini sínum í gegnum WhatsApp.

Í myndbandinu virðist hann sjúga hvítt púður upp í nefið en myndbandið var tekið upp á hóteli UEFA, daginn eftir að Coote vann sem myndbandsdómari á leik Portúgals og Frakkland í átta liða úrslitum.

Í yfirlýsingu PGMOL segir að rannsóknin á hegðun Coote hafi varpað ljósi á alvarleg brot hans á ráðningarsamningi sem ekki verði við unað. Dómarasamtökin segja það enn eindregin vilja sinn að aðstoða Coote með vellíðan hans í huga. Hann eigi rétt á að áfrýja niðurstöðu samtakanna sem felast í því að rifta ráðningarsamningi hans.

Að auki er nú í gangi rannsókn Evrópska knattspyrnusambandsins á hegðun dómarans og hefur hann verið settur í leyfi frá störfum á leikjum á vegum sambandsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×