Sport

Ásta vann Faceoff í fjórða sinn: „Hef náð öllum mark­miðunum síðan ég greindist“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásta Kristinsdóttir trúði vart eigin augum þegar í ljós kom að hún hafði unnið Faceoff.
Ásta Kristinsdóttir trúði vart eigin augum þegar í ljós kom að hún hafði unnið Faceoff.

Tæplega tíu þúsund manns voru í Jyske Bank BOXEN í Herning á laugardaginn og sáu Ástu Kristinsdóttur vinna sigur í Faceoff fimleikakeppninni. Þetta er í fjórða sinn sem Ásta vinnur þessa keppni. Árið hefur verið gott fyrir Ástu því í október varð hún Evrópumeistari í hópfimleikum með íslenska landsliðinu.

„Margir segja að þetta sé X-leika útgáfa af fimleikum. Þú færð að vera frjálsari útgáfan af sjálfum þér í þessari keppni. Þetta eru ekki eins og hefðbundnir fimleikar. Þetta er óhefðbundið og það er reynt að fá þig til að ýta þér aðeins lengra,“ sagði Ásta í samtali við Vísi er hún var beðin um að útskýra hvað Faceoff er.

Alls 9.600 manns voru saman komnir í Jyske Bank BOXEN í fyrradag.

„Þetta er bæði einstaklings- og liðakeppni. Ég keppti í einstaklingshlutanum. Maður þarf að fá boð um að keppa og við vorum átta stelpur frá Bretlandi, Danmörku og Grikklandi sem var boðið. Þú færð að vera frjálsari útgáfan af sjálfri þér og framkvæma stökk sem þú hefur kannski haft tækifæri til að sýna.“

Mikið sjónarspil

Ásta segir mjög mikilvægt að ná góðri tengingu við áhorfendur á staðnum.

„Þeir búast við að þú framkvæmir stökk með háum erfiðleikastuðli en á sama tíma vilja þeir að við lendum þeim og séum með smá sýningu í leiðinni; fá áhorfendur með þér,“ sagði Ásta. 

Það er ótrúlega mikið frelsi í þessari keppni og það er gaman að fá vera maður sjálfur og geta tjáð sig í gegnum þetta, á annan hátt en maður er vanur.

Alls voru 9.600 manns viðstaddir Faceoff í gær sem er langmesti fjöldi sem hefur verið á keppni síðan mótið var sett á laggirnar 2014. Keppnin var líka sýnd beint í danska ríkissjónvarpinu. Mikið er lagt upp því að hafa sýninguna sem flottasta og engu til sparað í þeim efnum.

„Þeir sem stofnuðu þetta voru orðnir þreyttir á hefðbundnum fimleikum þar sem allt er svo formlegt. Þarna færðu að vera frjálsari og framkvæmir kannski stökk sem þú myndir ekki sýna annars staðar. Þetta fær okkur til að sýna okkar karakter í gegnum fimleikana. Þarna er engin reglubók og þetta snýst um hvað dómurunum finnst. Þeir gefa einkunn frá 1-10 og inni í því er erfiðleikastuðull, hvort þú hafir lent stökkinu og hvernig þú náðir til áhorfenda,“ sagði Ásta sem er ansi vinsæl meðal þeirra sem fylgjast með Faceoff.

Stjarna hjá krökkunum

„Þeir sem eru að keppa þarna skara fram úr í sinni íþróttagrein og mörg þekkt andlit. Þetta er pínu fyndið því maður fær ekki alveg þessa tilfinningu heima. Þegar maður er að keppa þarna er maður stjarna í augum krakkanna. Eftir keppnina fór maður á stuðningsmannasvæði þar sem krakkarnir vildu fá myndir. Þetta er ógeðslega gaman og alltaf gaman að vera partur af þessu, sérstaklega í ár.“

Ásta ásamt hinum sjö stelpunum sem tóku þátt í einstaklingskeppninni.

Ásta vann Faceoff tvisvar árið 2022, bæði í Svíþjóð og Danmörku, vann mótið svo í Noregi í fyrra og Danmörku í ár. Alls eru titlar hennar því orðnir fjórir talsins.

Hafnar ekki svona boði

„Þetta er rosalegt umfang og þeir eru búnir að koma íþróttinni ótrúlega langt. Þetta var svolítið súrrealískt. Maður var meðvitaður um að það væru tíu þúsund manns að horfa á mann en á sama tíma meðtók maður það ekki alveg. Maður reyndi bara að njóta augnabliksins. Ég bjóst eiginlega ekki við því að vinna í ár. Ég fór bara því mér var boðið og það voru tíu þúsund manns þarna. Þú hafnar ekki svona boði,“ sagði Ásta sem fékk vegleg verðlaun fyrir að vinna Faceoff.

„Mér skilst að ég eigi að fá eitthvað um hálfa milljón íslenskra króna og svo fékk ég átján kílóa bikar. Það verður eitthvað að koma honum heim,“ sagði Ásta hlæjandi. Hún ítrekar að sigurinn í Faceoff í ár hafi komið sér á óvart.

Ásta með bikarinn volduga. Tekur maður svona með í handfarangur?

„Ég hafði ekki hugmynd um að ég myndi vinna þessa keppni því það eru ótrúlega þekkt og fræg nöfn þarna. Ég held ég hafi unnið þetta því ég er frekar hrein í stökkum. Ég skaut á mjög háan erfiðleika og lenti þeim.“

Ekki leyft flogaveikinni að stöðva sig

Ásta varð sem fyrr sagði Evrópumeistari með íslenska hópfimleikalandsliðinu í október. Hún var einnig valin í úrvalslið mótsins. 

Ásta hefur ekki látið veikindi aftra sér en hún greindist með flogaveiki í fyrra. Hún ræddi um veikindin við Vísi í fyrra þar sem hún hét því að láta þau ekki taka yfir líf sitt.

„Eins og ég sagði vildi ég ekki leyfa flogaveikinni að stöðva mig. Þegar þú greinist fyrst með þetta er kúnst að finna réttu lyfin og maður þarf að íhuga lífsstílsbreytingar. Hjá mér voru snerist þetta um breytingar á vinnu og skóla,“ sagði Ásta sem varð að hætta í draumanáminu en hún ætlaði sér að verða flugmaður.

Íslensku Evrópumeistararnir.fimleikasamband íslands

„Ég setti mér markmið og hef náð öllum þeim sem ég hef sett mér síðan ég greindist. Það er algengt að fólk staðni svolítið eftir svona. Ég leyfði mér að syrgja en var ákveðin að leyfa þessu ekki að stoppa mig og ég held að það hafi komið mér áfram. Ég fékk meiri tíma til að setja fullan kraft í fimleikana,“ sagði Ásta sem vatt kvæði sínu í kross eftir að hafa hætt í flugnáminu því hún freistar þess að komast inn í tannlæknanám.

Auk þess að vinna Faceoff í fjórgang hefur Ásta tvívegis orðið Evrópumeistari í í hópfimleikum í fullorðinsflokki (2024 og 2021) og einu sinni í unglingaflokki (2016). Hún hefur þrívegis verið valin í úrvalslið EM og varð svo Norðurlandameistari í fyrra. Þá eru ótaldir allir Íslands- og bikarmeistaratitlarnir sem hún hefur unnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×